- Auglýsing -
- Auglýsing -

Vel leikið af okkar hálfu

Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Heilt yfir fannst mér þetta vera vel leikinn leikur af okkar hálfu,“ sagði Rakel Dögg Bragadóttir annar þjálfara Fram eftir tíu marka sigur liðsins á Stjörnunni, 30:20, í Olísdeild kvenna í handknattleik í Mýrinni í Garðabæ í dag. Með sigrinum færðist Fram upp að hlið Hauka með 24 stig. Haukar eiga reyndar tvo leiki til góða.

Vikum frá vinnureglunum

„Við byrjuðum leikinn mjög vel og komumst í 8:1. Vörnin var mjög góð og markvarslan einnig til viðbótar við að sóknarleikurinn gekk fínt. Svo fórum við aðeins út úr vinnureglunum í vörninni. Við fórum bara vel yfir málin í hálfleik,“ sagði Rakel Dögg ennfremur en Fram var með þriggja marka forskot í hálfleik, 12:9.

Uppskárum fyrir vinnuna

„Við vorum ánægð með síðari hálfleikinn. Þá náðum við aftur upp aga og náðum stjórn á leiknum aftur. Þegar á leið þá skildu leiðir liðanna og við uppskárum fyrir þá vinnu sem við höfðum lagt í leikinn lengst af. Við höfðum góð tök á leiknum en það þurfti vinnu til þess að ná í þessu tvö stig gegn Stjörnuliðinu sem er sterkt og gefst aldrei upp,“ sagði Rakel Dögg sem sagði stöðuna í deildinni vera góða miðað við aðstæður. Hinsvegar væri hún, Einar Jónsson þjálfari og leikmenn ekki endilega að einblína á annað sæti deildarinnar. Enn eru fjórir leikir eftir af deildinni hjá Fram.

Einn leikur í einu

„Við hugsum um einn leik í einu, gamla góða klisjan. Markmiðið er að gera betur og betur eftir því sem leikjunum fjölgar, bæta okkar frammistöðu sem lið. Við ætlum að vinna alla leiki. Svo verður það bara að koma í ljós í hvaða sæti það skilar okkur þegar upp verður staðið,“ sagði Rakel Dögg sem var afar ánægð með að fá Steinunni Björnsdóttur til leiks á ný eftir fæðingarorlof.

Frábærar fréttir fyrir kvennaboltann

„Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hversu gott það er að fá hana aftur í hópinn. Steinunn er frábær karakter eins og allir vita. Hún kemur inn með ferskan blæ fyrir utan að vera stórkostlega góð í handbolta. Það eru ekki bara frábærar fréttir yfir okkur í Fram að fá Steinunni aftur heldur einnig fyrir íslenskan kvennahandbolta,“ sagði Rakel Dögg Bragadóttir annar þjálfara Fram í samtali við handbolta.is í Mýrinni í dag.

Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -