„Við erum brattir, klárir í slaginn en gerum okkur ljóst að við verðum að ná algjörum toppleik til þess að vinna og komast áfram,“ segir Hrannar Guðmundsson þjálfari karlaliðs Stjörnunnar fyrir viðureignina við rúmenska liðið CS Minaur Baia Mare í forkeppni Evrópudeildarinnar í dag. Flautað verður til leiks í Hekluhöllinni klukkan 13 en upphitun hefst meðal stuðningsmanna klukkan 11.30.
Eftir jafntefli í fyrri viðureign liðanna í Baia Mare fyrir viku, 26:26, verður leikið til þrautar í Garðabæ í dag. Sigurliðið kemst í 32-liða úrslit riðlakeppni Evrópudeildarinnar sem hefst í næsta mánuði.
Verðum að eiga eins góðan leik
„Úrslitin voru sterk úti gegn atvinnumannaliði sem er á meðal þeirra bestu í Rúmeníu. Við verðum að eiga eins góðan eða betri leik að þessu sinni til þess að vinna og það er stefnan,“ segir Hrannar vongóður.
Leikmenn CS Minaur Baia Mare komu til landsins á fimmtudaginn. Þeir fara til baka heim síðdegis í dag. Þar af leiðandi er viðureignin í Garðabæ svo snemma í dag sem raun ber vitni um.
Stjarnan verður án hins leikreynda fyrirliða Tandra Más Konráðssonar sem sleit eftir um 10 mínútu í viðureigninni ytra. Einnig er Sveinn Andri Sveinsson fjarri góðu gamni vegna meiðsla. Adam Thorstensen og Ísak Logi Einarsson, sem voru ekki með gegn Val í Olísdeildinni á miðvikudaginn eru klárir í slaginn í dag.
Spurður hvað hvað hafi gengið sérlega vel hjá Stjörnunni í fyrr leiknum sem liðið verður að taka mér sér inn í viðureignina í dag segir Hrannar það ekki síst vera öflugan varnarleik.
Tókum frumkvæðið
„Við tókum frumkvæðið með góðum varnarleik. Við leyfðum þeim aldrei að komast í þær stöður sem þeir vildu komast í. Þannig náðum við að slá vopnin úr höndum þeirra. Þetta þýðir að við verðum að vera svolítið agressívir og komast í skrokkinn á þeim í síðari viðureigninni. Eins verðum við að nýta okkar hraða,“ segir Hrannar.
Agaðir í uppstilltum leik
„Við vorum einnig mjög agaðir í uppstilltum sóknarleik í leiknum í Rúmeníu. Gáfum okkur góðan tíma í hverja sókn og nýttum vel þeirra veikleika. Það sama verður að vera upp á teningnum í dag,“ segir Hrannar Guðmundsson þjálfari Stjörnunnar.
Valur lék við CS Minaur Baia Mare í undanúrslitum Evrópubikarkeppninnar vorið 2024. Valur vann báða leikina, 36:28, í N1-höllinni og 30:24 í Rúmeníu, samanlagt 66:52.