- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Verðum að eiga okkar allra besta leik

Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals við hliðarlínu í leiknum í Baia Mare. Ljósmynd/Dragomir Ovidiu
- Auglýsing -

„Mér sýnist sem lið Olympiacos sé það sterkasta sem við höfum mætt til þessa í keppninni og vel við hæfi þegar komið er í úrslit,“ segir Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari karlaliðs Vals sem leikur á morgun, laugardag, fyrri leikinn við gríska meistaraliðið Olympiacos í úrslitum Evrópubikarkeppninnar í handknattleik. Íslenskt félagslið hefur ekki leikið til úrslita í Evrópumóti félagsliða í 44 ár.

Reyndasti hópurinn

„Olympicos hefur yfir að ráða sterkasta og reyndast hópnum þeirra liða sem við höfum mætt. Það hefur á að skipa sex grískum landsliðsmönnum, tveimur Króötum, Slóvena, Serba og Spánverja. Nokkrir leikmenn hafa upplifað flest sem hægt er að kynnast í handboltanum, eins og til dæmis Króatinn Ivan Sliskovic,“ segir Óskar ennfremur en hann hefur ásamt aðstoðarþjálfara sínum legið yfir upptökum með leikjum Olympiacos.

Valur hefur leikið 12 leiki í Evrópubikarkeppninni í vetur og unnið þá alla.
Olympiacos kom inn í keppnina einni umferð á eftir Val og hefur þar af leiðandi tekið þátt í 10 leikjum, níu hafa unnist en einum lokið með jafntefli. Það var leikur við ungverska liðið FTC á útivelli í undanúrslitum, 28:28.

„Þegar komið er í úrslit í Evrópukeppni þá er ekki við öðru að búast en að andstæðingurinn sé hrikalega öflugur. Innan okkar hóps ríki eftirvænting fyrir að takast á við þetta verkefni enda höfum við til þessa sýnt hvers við erum megnugir,“ sagði Óskar Bjarni.

Snýst allt um okkur

Sumir leikmanna Vals eru laskaðir eftir tímabilið og ekki síst eftir viðureignina við Aftureldingu í undanúrslitum Íslandsmótsins á miðvikudagskvöld. „Aðalmálið á þessari stundu snýst um hvernig ástandið er á okkur. Þótt það sé með ýmsu móti um þessar mundir á ég ekki von á öðru en að allir mínir menn verði klárir í slaginn. Þetta er úrslitaleikur í Evrópukeppni. Ég veit að menn eru tilbúnir að leggja ýmislegt á sig til að taka þátt,“ sagði Óskar Bjarni og bætti við að Ísak Gústafsson, Róbert Aron Hostert og Magnús Óli Magnússon séu undir eftirliti og meðferð hjá sjúkrateymi Valsliðsins. Tveir þeir síðarnefndu komust ekki klakklaust í gegnum leikinn við Aftureldingu á miðvikudagskvöld sem áður segir. Ísak hefur lengi glímt við eymsli í kálfum.

Töfra fram bestu hliðarnar

Óskar segir að til þess að standa liði Olympiacos á sporði verði Valsliðið að töfra fram allar sínar bestu hliðar, hreinlega að leika eins vel og mögulegt er. „Allt þarf að verða betra en í síðustu leikjum okkar í úrslitakeppninni, svo dæmi sé tekið. Við verðum að ná sextíu góðum mínútum á laugardaginn. Til samanburðar voru góðu mínúturnar sextán gegn Aftureldingu á miðvikudaginn,“ segir Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals.

Viðureign Vals og Olympiacos hefst klukkan 17 á morgun í N1-höll Vals á Hlíðarenda. Síðast þegar fregnaðist var ennþá hægt að verða sér út um aðgöngumiða á stubb.is.

Sjá einnig:

Átta lið í undanúrslitum – frá Val, Þrótti, Víkingi, FH, Haukum og ÍBV

Endurtekur Valur leikinn frá 1980?

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -