- Auglýsing -
- Auglýsing -

Endurtekur Valur leikinn frá 1980?

Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -
Hér fyrir neðan er síðari grein Sigmundar Ó. Steinarssonar þar sem hann rifjar upp þátttöku íslenskra félagsliða í undanúrslitum í Evrópukeppni félagsliða í karlaflokki. Fyrri greinin birtist í gær: 
Átta lið í undanúrslitum – frá Val, Þrótti, Víkingi, FH, Haukum og ÍBV

Óskar Bjarni Óskarsson mætir með sveit sína að Hlíðarenda í kvöld kl. 19.30, þar sem barist verður við leikmenn rúmenska liðsins CS Minaur Baua Mare. Leikmenn hans hafa unnið allar tíu viðureignir sínar í Evrópubikarkeppninni 2023-2024 og eru þeir ákveðnir að halda áfram á sigurbraut.

Óskar Bjarni hefur einu sinni áður mætt með sveit í viðureign í undanúrslitum gegn liði frá Rúmeníu í Evrópukeppni. Það var í Áskorendakeppninni (Challenge Cup) 2016-2017, þá gegn AHC Potaissa Turda. Dómarahneyksli kom þá í veg fyrir að Valsmenn kæmust í úrslitaleikinn og léku tékkneskir dómarar aðalhlutverkið í Turda og færðu heimamönnum nægilega stóran sigur á silfurfati. Dómarar frá Noregi mættu á sama stað ári síðar og þeir sáu til þess að Rúmenar náðu að leggja Eyjamenn að velli með nægilega stórum mun til þess að Potaissa komst í úrslitaleikinn í Áskorendakeppninni 2017-2018. 

Við segjum hér síðar frá þeim óþverraskap sem átti sér stað í Turda og Valsmenn og Eyjamenn máttu þola. Byrjum á því að segja frá Haukum sem komust í undanúrslit EHF-keppninnar 2000-2001.

Haukar 2000-2001

Haukar, undir stjórn Viggós Sigurðssonar, tóku þátt í forkeppni Meistaradeildar Evrópu 2000-2001. Þeir byrjuðu á því að leggja belgíska liðið Eynatten að velli og mættu síðan Braga frá Portúgal í 2. umferð. Haukar máttu þola tap fyrir Braga og fóru þeir þá í EHF-keppnina, þar sem þeir lögðu Bodø, Noregi, Sandefjord, Noregi og Sporting, Portúgal í 8-liða úrslitum.

Halldór Ingólfsson var á meðal allra bestu handknattleiksmanna Hauka árum saman.

Haukar mættu Metkovic Jambo frá Króatíu í undanúrslitum og tapaði báðum leikjunum; 20:22 heima og 25:29 úti.

Þjálfari: Viggó Sigurðsson.

12 leikir: 5 sigurleikir, eitt jafntefli og 6 tapleikir.

311 mörk: Halldór Ingólfsson var markahæstur með 69 mörk, Rúnar Sigtryggsson 46, Aliaksandr Shamkuts 39.

Helstu leikmenn: Halldór, Rúnar, Shamkuts, Jón Karl Björnsson, Einar Örn Jónsson, Óskar Ármannsson, Petr Baumruk, Þorvaldur Tjörvi Ólafsson, Bjarni Frostason.

Viggó Sigurðsson þjálfaði m.a. Hauka um árabil með frábærum árangri.

Valur 2016-2017

Á leið sinni að undanúrslitum í Áskorendakeppninni 2016-2017, lögðu Valsmenn að velli Haslum, Noregi, RK Partizan 1949, Svartfjallalandi og Sloga Pozega, Serbíu, en í fyrri leiknum, 30:27, skoraði Josip Juric Gric 14 mörk.

Valsmenn mættu rúmenska liðinu AHC Potaissa Turda og vann öruggan 8 marka sigur á heimavelli, 30:22. Gric gat ekki leikið seinni leikinn í Turda í Rúmeníu, en sá leikur var mjög sögulegur.

Þar léku tékknesku dómararnir Lukas Frieser og Radoslav Kovolic aðalhlutverkin og sáu um að heimamenn myndu vinna með 9 marka mun og komast í úrslitaleikinn. Það tókst hjá þeim, sigur heimamanna var 32:23; samanlagt 54:53.

Ívar Benediktsson, eigandi handbolti.is var á svæðinu sem blaðamaður Morgunblaðsins og skrifaði:
„Ég hef séð marga handboltaleiki á rúmum 20 árum í íþróttafréttamennsku og á mörgum stórmótum. Ég hef heyrt frásagnir manna sem hafa orðið fyrir órétti sem þessu á sínum tíma þegar þeir léku handknattleik eða þjálfuðu en að verða sjálfur vitni að þessu er kapítuli út af fyrir sig. Það stóð ekki steinn yfir steini í dómgæslunni sem var eins og svart og hvítt á hvorum helmingi vallarins. Hreinlega ótrúlegt. Aldrei hef ég séð handboltaíþróttina dregna jafn mikið niður í svaðið og af Tékkunum tveimur sem dæmdu leikinn í Turda í gær. Og þar sem ég stóð í miðjum mykjuhaugnum varð mér ljóst að það væri alveg sama hvernig þessi leikur spilaðist. Handritið hafði verið skrifað fyrirfram og lyktir hans skyldu vera níu marka sigur, heimamönnum í vil. Sú varð raunin. Menn gengu svo langt að dæma lögleg mörk ólögleg til þess að handritinu væri fylgt. Staðreyndin er synd og skömm fyrir íþróttina.“

Anton Rúnarsson, mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninnar 2021 er nú aðstoðarþjálfari Vals. Anton tók þátt í leiknum í Turda fyrir sjö árum. Mynd/Mummi Lú

Þjálfari: Óskar Bjarni Óskarsson.

8 leikir: 4 sigurleikir, þrjú jafntefli, einn tapleikur.

213 mörk: Josip Juric Gric, Króatíu, 47 mörk, Vignir Stefánsson 42 mörk.

Helstu leikmenn: Gric, Vignir, Anton Rúnarsson, Sveinn Aron Sveinsson, Ólafur Ægir Ólafsson, Hlynur Morthens, Sveinn Jose Rivera.

ÍBV 2017-2018

Eyjamenn mættu til leiks undir stjórn Arnars Péturssonar í Áskorendakeppnina 2017-2018 og komust í undanúrslit í viðureignum gegn Potaissa Turda, eins og Valur árið áður.  

Á leið sinni þangað lögðu Eyjamenn að velli HC Gomel frá Hvíta-Rússlandi, Ramhron Hashron, Ísrael og Skif Krasnodar, Rússlandi.

Eyjamenn léku fyrst heima gegn Potaissa Turda og unnu með þriggja marka mun, 31:28. Theodór Sigurbjörnsson skoraði 13 mörk. Seinni leikurinn í Turda í Rúmeníu var martröð fyrir þá og dómarahneyksli, eins og viðureign Vals í Turda ári áður. Heimamenn unnu með fjögurra marka mun, 28:24, og samanlagt 56:55.

Róbert Aron Hostert leikur nú með Val en var með ÍBV í Turda 2018. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Ívar Benediktsson var aftur á svæðinu og skrifaði í Morgunblaðið; sagði þannig frá lokakaflanum, er hvorki gekk né rak hjá heimamönnum:
„Skyndilega urðu umskipti á leiknum. Turda skoraði tvö mörk í röð, jafnaði metin. Í þeirri stöðu voru rúmar 13 mínútur til leiksloka og staðan jöfn. Um það leyti var brotið gróflega á Róberti Aroni Hostert. Ráðist var á hann í hraðaupphlaupi og hann m.a. sleginn í andlitið. Sá seki var rekinn af leikvelli og það var eins og við manninn mælt. Ekki aðeins hann trylltist heldur einnig áhorfendur í keppnishúsinu. Allt ætlaði um koll að keyra. Þarna varð snúningspunktur í leiknum. Sóknarleikur ÍBV var í handaskolum eftir þessa uppákomu og á fáeinum mínútum hrundi spilaborgin. Í stað þess að nýta sér liðsmuninn, sem hafði gengið vel fram að þessum tíma, gekk hvorki né rak. Ekki bætti úr skák að allir vafadómar féllu með heimamönnum. Segja má að annað árið í röð hafi dómarar fallið á prófinu í Turda. Norskir frændur okkar (Lars Jørgum og Håvard Kleven) stóðu ekki í lappirnar á lokakaflanum. Þeir voru klókir eins og leikmenn Turda og létu hrífast með stemningunni og hávaðanum. Leikurinn snerist í höndum leikmanna á fáeinum mínútum. Leikmenn Turda komust á bragðið. Eftir það varð ekki við neitt ráðið. Þegar öllu er á botninn hvolft þá geta leikmenn ÍBV hinsvegar nagað sig í handarbökin. Þeir réðu ekki við mótlætið á lokakaflanum. Sóknarleikurinn var ekki viðunandi í hluta leiksins og eins og í fyrri leiknum þá fóru of mörg upplögð færi forgörðum. Þegar mótlætið jókst er á leikinn leið og kaflaskiptin urðu þá leystu menn ekki nógu vel úr þeirri stöðu sem upp kom og fóru illa að ráði sínu í sóknarleiknum.“

Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari kvenna var þjálfari ÍBV 2018. Mynd/Mummi Lú

Þjálfari: Arnar Pétursson.

8 leikir: 6 sigurleikir, eitt jafntefli og einn tapleikur.

237 mörk: Sigurbergur Sveinsson markahæstur með 49 mörk, Theodór Sigurbjörnsson 36, Arnar Smári Jónsson 34.

Helstu leikmenn: Sigurbergur, Theódór, Agnar Smári, Róbert Aron Hostert, Andri Heimir Friðriksson, Kári Kristján Kristjánsson, Elliði Snær Viðarsson, Aron Rafn Eðvaldsson, Stephen Nielsen.

Snorri Steinn ekki ánægður

Snorri Steinn Guðjónsson, fyrrverandi þjálfari Vals, var ekki ánægður þegar Handknattleikssamband Evrópu, EHF, ákvað að flauta Áskorendakeppnina 2019-2020 af, vegna Covid. Valur var þá taplaust og komið í 8-liða úrslitin, þar sem mótherjarnir áttu að vera Halden frá Noregi. Hinir leikirnir í 8-liða úrslitunum voru:

Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari Vals frá 2017 til 2023. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

AEK Aþena, Grikklandi – Potaissa Turna, Rúmeníu.

HC Victor, Rússlandi – CSM Búkarest, Rúmeníu.

Karvina, Tékklandi – Dukla Prag, Tékklandi.

Snorri Steinn taldi möguleika Vals hafi verið góða; að komast í undanúrslit og jafnvel að fara alla leið í úrslitaleikinn.

Áfram Valur

Stór stund rennur upp að Hlíðarenda í kvöld; fyrri undanúrslitaleikurinn gegn rúmenska liðinu  CS Minaur Baua Mare blasir við. Valsmenn eru baráttuglaðir með afar sterkt lið, sem leikur hraðan og skemmtilegan handknattleik undir stjórn Óskars Bjarna Óskarssonar. Það er næsta víst að uppselt verði á leikinn og stemningin mikil. Valur er við þröskuldinn að ná sama árangri og Valsliðið gerði fyrir 44 árum; að leika úrslitaleik í Evrópukeppni.

Tveir af reyndari leikmönnum Vals, Magnús Óli Magnússon og Vignir Stefánsson. Mynd/Eyjólfur Garðarsson

Þess má geta að Valsliðið er mikið breytt frá 2017 þegar það var síðast í undanúrslitum. Það eru aðeins tveir leikmaður eftir úr því liði; Alexander Örn Júlíusson og Vignir Stefánsson.

Baráttukveðjur til Valsmanna,

Sigmundur Ó. Steinarsson.

Fyrri upprifjunargrein Sigmundar sem birtist í gærmorgun:

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -