- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Verðum að laga stöðuna

Rut Arnfjörð Jónsdóttir í hörðum slag. Mynd/EPA
- Auglýsing -

„Við erum mjög leiðar yfir hvernig tókst til í fyrri leiknum þar sem við ætluðum okkur meira en raun varð á svo að möguleikarnir yrðu meiri nú þegar kemur að síðari leiknum. Staðan er hinsvegar eins og hún er og þess vegna verðum við að gera eins vel og hægt er að nýta leikinn og það sem við höfum verið að vinna í síðustu vikur og leggja inn fyrir framhaldið hjá landsliðinu,“ sagði Rut Arnfjörð Jónsdóttir, landsliðskona í handknattleik í samtali við handbolta.is. Í kvöld fer fram síðari viðureign Íslands og Slóveníu í umspili um keppnisrétt á heimsmeistaramótinu sem haldið verður á Spáni í desember.


Leikur Íslands og Slóveníu hefst klukkan 19.45 í kvöld í Schenkerhöllinni á Ásvöllum. Áhorfendur verður ekki heimilaður aðgangur en hægt verður að fylgjast með viðureigninni í beinni útsendingu hjá RÚV.


Staða íslenska landsliðsins er erfið eftir tíu marka tap, 24:14, í fyrri leiknum í Ljubljana á laugardaginn. „Við verðum að ná eins miklu út úr þessum leik og kostur er,“ segir Rut.


„Vörnin var fín í fyrri leiknum þótt skerpa megi á ýmsum atriðum. Við vorum í vandræðum í uppstilltum sóknarleik og verðum þar af leiðandi að leggja meira upp úr að fá fleiri auðveld mörk. Undanfarna daga höfum við hugað að áherslubreytingum í sóknarleiknum sem eru nauðsynlegar ef við ætlum að koma okkur í betri stöðu gegn þeim. Við verðum meðal annars að hreyfa okkur meira án bolta, opna hornin og fleira í þeim dúr,“ sagði Rut sem er staðráðin í að fara í gegnum þennan leik á eins góðan hátt og hægt er.


„Við erum ánægðar með að fá landsleiki og viljum þar af leiðandi að þeir skilji sem mest eftir sig. Leggja inn fyrir framhaldið,“ sagði Rut Arnfjörð Jónsdóttir, landsliðskona í handknattleik.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -