„Maður þekkir orðið betur inn á undirbúningstímann með hverju árinu. Fram undan er þriðja mótið mitt með landsliðið og ljóst að ég er að komast í ákveðna rútínu um leið og ég þekki orðið betur inn á liðið og leikmenn þekkja mig einnig betur og hvað það er sem ég sækist eftir,“ segir Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik karla þegar handbolti.is hitti hann að máli fyrir fyrstu æfingu landsliðsins í undirbúningi fyrir Evrópumótið. Fyrsti leikur íslenska landsliðsins verður gegn Ítalíu í Kristianstad Arena föstudaginn 16. janúar, eftir tvær vikur.
„Eins og venjulega verðum við að nýta tímann vel og vinna okkar starf af kostgæfni. Maður vill komast yfir sem mest á þeim tíma sem gefst til undirbúnings. Það er þó mikilvægast af öllu að gera það vel sem við tökum okkur fyrir hendur. Hafa gæðin í huga umfram magnið vegna þess að það er alveg ljóst að maður getur aldrei gert allt það sem þarf að gera,“ segir Snorri sem eins og áður segir stýrir landsliðinu á þriðja stórmótinu í röð, þar af öðru Evrópumótinu.
Fimmtudaginn í næstu viku fer landsliðið til Frakklands og leikur tvo vináttuleiki 9. og 11. janúar. „Bæði á æfingum og í leikjum verður að hafa í huga að dreifa álaginu vel á milli manna.“
Gott ástanda á öllum nema Þorsteini
„Við verðum vel undirbúnir þegar á hólminn verður komið í Kristianstad. Tilfinningin er alltaf svipuð. Fyrir utan Þorstein Leó Gunnarsson er gott ástand á hópnum. Margir hafa verið í stórum hlutverkum í sínum liðum og leikið vel. Það er jákvætt,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik karla í viðtali við handbolta.is fyrir fyrstu æfinguna í Safamýri í hádeginu í dag.
Leikjadagskrá: EM karla 2026 – leikdagar, leikstaðir, leiktímar
Ennþá ríkir óvissa um þátttöku Þorsteins Leós


