„Vörnin og markvarslan var ekki góð hjá okkur í kvöld. Við vorum í vandræðum með Tandra Má. Hann skoraði mörg mörk, ekki síst undir lokin,“ sagði Einar Jónsson þjálfari Fram í samtali við handbolta.is í gærkvöldi eftir þriggja marka tap Framara fyrir Stjörnunni, 32:29, í Úlfarsársdal í viðureign liðanna í Olísdeild karla.
Ættu kannski að skipta yfir í Fram
„Í leiknum á undan var Rúnar [Kárason] sem var okkur erfiður, þar áður Einar Rafn [Eiðsson] og Tandri Már í kvöld. Við verðum að skoða það af hverju menn blómstra svona sérstaklega gegn okkur. Þeir ættu kannski að skipta yfir í Fram og leika með okkur,“ sagði Einar og bætti við í alvarlegri tón.
„Mér fannst við vera að ná tökum á Stjörnumönnum þegar leið á síðari hálfleik en þá hjó Tandri á hnútinn með þrumuskotum sínum. Mér fannst við vera góðir síðasta korterið í kvöld en því miður þá byrjuðum við síðari hálfleik illa og lentum fimm mörkum undir og grófum okkur þar með í nokkuð djúpa holu. Á móti kemur að við náðum okkur upp úr henni að nokkru leyti sem er að út af fyrir sig jákvætt. Fyrri hálfleikur var að mörgu leyti fínn en því miður vorum við klaufar á stundum, við klúðruðum vítaköstum og upplögðum marktækifærum á sama tíma og Stjarnan skoraði af 12 til 15 metra færi. Það er dýrt,“ sagði Einar Jónsson þjálfari Fram sem nú situr í sjötta sæti Olísdeildar eftir þrjá tapleiki í röð.
Þorsteinn fjarverandi vegna meiðsla
Skarð er fyrir skildi hjá Fram að Þorsteinn Gauti Hjálmarsson er meiddur á framhandlegg og getur ekkert leikið með í sóknarleiknum. Viðureignin í gærkvöld var sú þriðja í röð sem Þorsteinn Gauti er ekki með í sóknarleiknum en hann var markahæsti leikmaður liðsins.