„Fyrri hálfleikur var frábær af okkar hálfu, varnarleikurinn var stórkostlegur og markvarslan góð. Auk þess var sóknarleikurinn mjög góður. Í upphafi síðari hálfleiks byrjaði Eyjaliðið að plúsa Elínu Rósu. Þá fór allt í lás hjá okkur, það verður bara að segjast eins og er. Við verðum að skoða vel til hvaða ráða skal grípa þegar sú staða kemur upp,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Vals í samtali við handbolta.is í gærkvöldi eftir sigur Vals á ÍBV í uppgjöri toppliða Olísdeildar kvenna í Origohöllinni, 23:21.
Eftir yfirburði Vals í fyrri hálfleik sneri ÍBV við taflinu í síðari hálfleik svo úr varð æsilega spennandi leikur þar sem litlu mátti muna að ÍBV tækist að öngla í annað stigið. Valur skoraði ekki fyrsta mark sitt í síðari hálfleik fyrr en eftir nærri 14 mínútur.
Áfram í reyk
Ágúst Þór tók leikhlé snemma í síðari hálfleik þegar ljóst var að sú ákvörðun ÍBV að taka Elínu Rósu úr umferð riðlaði verulega sóknarleik Valsliðsins. Svo virtist sem eldræða Ágústs Þórs hafi ekki hrifið sem skildi.
„Það sást best hversu gáfulegt það var sem þjálfarinn sagði að það var bara allt í reyk áfram hjá okkur,“ sagði Ágúst Þór léttur í bragði að vanda spurður um hvað hann hafi lagt til í leikhléi að loknum sex mínútum í síðari hálfleik þegar leikmenn ÍBV voru byrjaðir að anda ofan í hálsmálið á leikmönnum Vals.
Arna Karítas sigldi þessu í hús
„Burt séð frá þessu þá má ekki gleyma því að Marta markvörður ÍBV varði mjög vel, ekki síst úr opnum færum. Svo ÍBV er með mjög sterkt lið enda bæði deildar- og bikarmeistari. Það var alltaf ljóst að liðið reyndi að svara með áhlaupi,“ sagði Ágúst Þór og setti upp alvarlegri svip og bætti við:
„Okkur tókst að halda haus undir lokin í jöfnum leik. Segja má að Arna Karítas [Eiríksdóttir] sem er rétt 15 ára hafi siglt sigrinum í hús fyrir okkur á síðustu mínútu. Hún vann tvö vítaköst. Mörkin úr vítaköstunum skiptu sköpum þegar upp var staðið,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Vals sem einbeitir sér næstu daga að fyrri viðureigninni við HC Dunara Barila frá Rúmeníu í undankeppni Evrópudeildarinnar sem fram fer í Origohöllinni á sunnudaginn.
Staðan og næstu leikir í Olísdeild kvenna.