Ívar Benediktsson skrifar frá Tíblisi, [email protected]
„Ferðalagið var svolítið strembið í gær, nótt eða í morgun, hvað sem segja skal en það verður engin afsökun fyrir okkur þegar á hólminn verður komið á morgun hér í Tíblisi,“ sagði Orri Freyr Þorkelsson rétt áður en hann hljóp inn á æfingu íslenska landsliðsins í Tbilisi Arena síðdegis í dag, einu æfingu landsliðsins áður en það mætir landsliði Georgíu í undankeppni EM2026 á morgun. Flautað verður til leiks klukkan 14.
Leikmenn íslenska liðsins tóku því náðugt fram eftir öllum degi í dag eftir langt og strangt ferðalag í gær, m.a. með óvæntri millilendingu í Búkarest í Rúmeníu vegna veikinda eins farþega flugvélarinnar eins og handbolti.is hefur sagt frá.
„Við náum restinni af ferðalaginu úr okkur á æfingunni,“ sagði Orri Freyr sem eins og aðrir leikmenn íslenska landsliðsins ætla sér tvö stig úr leiknum á morgun og vera í efsta sæti 3.riðils þegar reikningarnir verða gerðir upp eftir tvær fyrstu umferðir undankeppninnar.
„Georgíumenn eiga það til að vera ófyrirsjáanlegir í leik sínum, gera ýmislegt sem ekki er alltaf búist við. Þess vegna verðum við að halda okkur fast við skipulag okkar, leyfa Georgíumönnum aldrei frumkvæði og stemningu eða skrautmörkum. Við búum okkur undir hörkuleik gegn liði sem vill ná stemningunni með sér í meðbyr heimavallarins. Við erum að sama skapi spenntir fyrir að takast á við þetta verkefni. Að sjálfsögðu er ég klár í slaginn,“ sagði Orri Freyr Þorkelsson landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is.
Orri Freyr skoraði sex mörk og var næst markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins í sigurleiknum á Bosníu í Laugardalshöll á miðvikudaginn.
Undankeppni EM karla “26: úrslit leikja