- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Verður snúið að koma leikjunum í kring

Sigurgeir Árni Ægisson, framkvæmdastjóri handknattleiksdeildar FH, og Ásgeir Jónsson, formaður t.h. hafa í mörg horn að líta. Mynd/FH
- Auglýsing -

„Núna fer af stað ákveðið verkferli hjá okkur FH-ingum eftir að búið er að draga. Vissulega eru aðstæður þannig í dag að það er krefjandi að láta þetta allt ganga upp,“ segir Ásgeir Jónsson, formaður handknattleiksdeildar FH við handbolta.is um væntanlega leiki FH-inga í Evrópubikarkeppninni sem fram eiga að fara í desember.


Eins og kom fram á handbolti.is í morgun þá dróst FH á móti HC Robe Zubří frá Tékklandi. Ráðgert er að fyrri leikurinn verði í Kaplakrika 12. eða 13. desember og sá síðari ytra viku síðar.

Hægara sagt en gert

Eins og staðan er í baráttunni við kórónuveiruna er hinsvegar hægara sagt en gert að koma leikjunum tveimur á dagskrá. Gildir þá einu hvort báðir leikirnir fari fram hér á landi, í Tékklandi eða að leikið verði heima og að heiman. Þessu til viðbótar þá hefur FH-liðið ekkert æft saman í tvo mánuði. Vonir standa til að eitthvað skáni í þeim efnum eftir næstu helgi.


Ásgeir segist hafa byrjað strax eftir að dregið var í morgun að leita að lausnum svo leikirnir geti farið fram.

Sóttkví yfir jólin?

„Ég er kominn í samband við formann HC Robe Zubří. Við erum að reyna að ná áttum í þessu öllu saman. Eins og sóttvarnarreglur eru hér á Íslandi er ljóst að ef við höldum okkur við að leika hér heima 12. eða 13. desember og síðari leikinn ytra viku síðar þá þurfum við FH-ingar að vera í sóttkví yfir jólin. Það er ekki mjög spennandi tilhugsun.

Staðan í Tékklandi er einnig ekkert sérstaklega spennandi í dag en við munum skoða alla möguleika og við vonum það besta,“ segir Ásgeir og undirstrikar að málið verði skoðað frá öllum hliðum.

Allt til skoðunar

„Það er í raun allt undir, spila heima og heiman, spila báða leikina í Tékklandi eða báða leikina á Íslandi. Við erum bara á fullu að vinna í þessu. Ég mun ræða við sóttvarnaryfirvöld og HSÍ í fyrramálið og sjá hvað er hægt að gera. Ég á ekki von á öðru en að aðilar verði okkur hjálplegir,“ segir Ásgeir sem vonast til að mynd verð komin á hvað gert verður fyrir eða um næstu helgi.

Skýrist vonandi fyrir eða um helgina


„Ég vonast til að það verði komin endanleg mynd á þetta um helgina. Við FH-ingar erum spenntir fyrir að taka þátt í Evrópukeppninni, enda hefur það verið skemmtilegt verkefni hvers tímabils hjá okkur undanfarin ár,“ segir Ásgeir Jónsson, formaður handknattleiksdeildar FH við handbolti.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -