Leikmenn ungverska meistaraliðsins One Veszprém hafa lagt af stað í ferð sína til Íslands. Myndir (sjá neðst í þessari grein) birtust í morgunsárið af glaðbeittum leikmönnum liðsins þess albúna að halda af stað. Von er á Veszprém-liðinu til landsins síðdegis í dag.
Hér á landi verður Veszprém fram á laugardag við æfingar en hámarki Íslandsferðarinnar verður náð á föstudaginn þegar FH mætir One Veszprém í Kaplakrika í kveðjuleik Arons Pálmarssonar landsliðsmanns, FH-inga og fyrrverandi leikmanns One Veszprém og fleiri af fremstu félagsliðum heims.
Meðal leikmanna One Veszprém er Bjarki Már Elísson landsliðsmaður.
Í gær sagði FH frá því enn væru nokkrir aðgöngumiðar eftir á kveðjuleikinn og glæsilega dagskrá honum tengdum. Séu miðar enn eftir þá er hægt að nálgast þá stubb.is.