- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Við látum ekki staðar numið núna“

Sigursteinn Arndal þjálfari FH lyfti Íslandsbikarnum á loft að Varmá. Ljósmynd/J.L.Long
- Auglýsing -

„Við stefndum á að verða Íslands- og deildarmeistarar en það var að sjálfsögðu ekkert sjálfgefið þótt liðið væri vel mannað. Við erum því mjög ánægðir og ég persónulega afar sáttur við hvað strákarnir voru tilbúnir að leggja hart að sér í vetur við að koma FH á þann stað sem FH á að vera á,“ sagði Sigursteinn Arndal þjálfari nýkrýndra Íslandsmeistara í handknattleik karla, FH, þegar handbolti.is heyrði honum hljóðið.

Sigursteinn segir sigur FH á Íslandsmótinu eiga sér lengri aðdraganda en eitt ár. Síðan hann tók við hefur unnið markvisst að þessu markmiði stig af stigi.

Myndasyrpa: Meistarafögnuður FH-inga

Setti alvöru pressu á okkur

„Ferðalag okkar í átt að Íslandsmeistaratitlinum hófst ekki í haust, heldur höfum við unnið að uppbyggingu FH-liðsins undanfarin ár með það að markmiði meðal annars að vinna Íslandsmeistaratitilinn. Við höfum jafnt og þétt styrkt liðið. Á síðasta sumri bættist enn aukinn liðsauki þegar Daníel Freyr Andrésson og Aron Pálmarsson fluttu heim. Koma þeirra var frábær viðbót en setti að sama skapi alvöru pressu á okkur. Ég er rosalega ánægður með hvernig við tókumst á við hlutina og allt það sem gerðist hjá okkur í vetur,“ sagði Sigursteinn sem var að ljúka sínu fjórða keppnistímabili sem þjálfari FH.

Sigursteinn Arndal og Ásbjörn Friðriksson. Ljósmynd/J.L.Long
Sigursteinn Arndal er 44 ára gamall FH-ingur í húð og hár. Hann tók við þjálfun karlaliðs félagsins sumarið 2020. Sigursteinn lék rúmlega 200 leiki fyrir FH frá 1997 til 2010 og var um skeið fyrirliði. 
Sigursteinn lék með danska úrvalsdeildarliðinu Team Helsinge (nú Nordsjælland) frá 2002 til 2004 og Bad Schwartau í Þýskalandi 2004 og 2005. Áður en Sigursteinn tók við þjálfun meistaraflokks FH hafði hann m.a. verið þjálfari U20/21 árs landsliða karla. Í árslok 2019 úrskrifaðist Sigursteinn með EHF Master Coach gráðu.

Vaxið við hverja raun

„Liðið hefur tekist á við ýmis verkefni allt keppnistímabilið og bara stækkað með hverjum mánuði sem liðið hefur. Við höfum verið á skemmtilegu en krefjandi ferðlagi síðasta árið og þess vegna er afar kærkomið að komast í stutt frí á næstunni áður en undirbúningur að næstu leiktíð hefst. Við látum ekki staðar numið núna.“

Íslandsmeistarar FH í handknattleik karla 2024. Ljósmynd/J.L.Long

Þessum titli fylgir meiri gæsahúð af því að þetta er FH

FH varð deildarmeistari í vor, fékk fjórum stigum meira en næsta lið á eftir. Í deildinni unnu FH-ingar 18 af 22 leikjum, gerðu eitt jafntefli og töpuðu þremur leikjum.
FH lék 11 leiki í úrslitakeppninni, vann átta, þrír töpuðust, þar af tveir í fimm leikja undanúrslitarimmu við ÍBV.
FH hefur sautján sinnum unnið Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik innanhúss í meistaraflokki karla. Fyrsti titilinn vannst 1956.

Eyjamenn unnu FH í undanúrslitum fyrir ári án þess að FH-ingum tækist að vinna leik þrátt fyrir jafnar viðureignir. Þess vegna var undanúslitarimman við ÍBV hjalli fyrir FH-liðið að stíga yfir.

Vorum upp við vegg

„Rimmur FH og ÍBV undanfarin tvö ára hafa verið frábærar, ekki síst í ár þegar við lentum upp við vegg í oddaleik eftir að hafa unnið tvo fyrstu leikina. Við leystum frábærlega úr okkar málum í oddaleiknum með mjög öruggum sigri.“

Olís karla: Leikjadagskrá, úrslitakeppni

Tíu daga óvissa

„Eftir Eyjaeinvígið tók við tveggja vikna bið eftir úrslitaleikjunum. Fyrst var óvíst hvort við myndum mæta Aftureldingu eða Val. Það var erfitt að vita ekki hver andstæðingurinn yrði auk alls þessa biðtíma sem hefði getað verið 10 dögum lengri ef Valur hefði unnið Aftureldingu í undanúrslitum. Loksins þegar botn fékkst í hitt einvígið þá fengum við þriggja daga fyrirvara til að búa okkur undir næsta andstæðing,“ sagði Sigursteinn sem beinir orðum sínum til HSÍ.

Vonar að HSÍ dragi lærdóm

„Ég vona að HSÍ dragi lærdóm af þessari úrslitakeppni og að menn verði betur undirbúnir ef íslensk félagslið fara langt í Evrópukeppni eins og Valur gerði núna.“

FH er Íslandsmeistari – 17. Íslandsmeistaratitillinn í karlaflokki

Litlar breytingar – og þó?

Eins og sakir standa er ekki útlit fyrir að miklar breytingar verði á leikmannahópi FH fyrir næsta keppnistímabil. Einar Bragi Aðalsteinsson kveður og gengur til liðs vð IFK Kristianstad og víst er að Gunnar Kári Bragason, ungur línumaður Selfoss bætist í hópinn, auk Ólafs Gústafssonar sem síðast lék með KA en er uppalinn FH-ingur og var hluti af Íslandsmeistaraliði FH fyrir 13 árum.

„Sumarið er rétt að byrja. Það er aldrei að vita hvað gerist,“ sagði Sigursteinn Arndal þjálfari FH leyndardómsfullur á svip.

Olísdeild karla.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -