Þegar flest lið þýsku 1. deildarinnar hafa lokið 14 umferðum er Viggó Kristjánsson landsliðsmaður og leikmaður Leipzig í fjórða sæti á lista yfir markahæstu leikmenn. Viggó hefur skoraði 84 mörk. Einnig hefur hann gefið 33 stoðsendingar. Viggó hefur skoraði 26 mörk úr vítaköstum.
Elvar Örn Jónsson er næst markahæstur Íslendinga í deildinni. Elvar Örn sem leikur með MT Melsungen er í 11. sæti með 75 mörk og á auk þess leik til góða. Ómar Ingi Magnússon leikmaður Magdeburg er skammt á eftir fyrrverandi sveitunga sínum frá Selfossi með 71 mark í 13 leikjum.
Manuel Zehnder, leikmaður Eisenach, er markahæstur í þýsku 1. deildinni með 107 mörk í 14 leikjum. Danski landsliðsmaðurinn Mathias Gidsel, sem leikur með Füchse Berlin, er næstur á eftir með 100 mörk auk 58 stoðsendinga.
Annar Dani, Casper Mortensen, situr í þriðja sæti með 96 mörk.
Þess má ennfremur geta að Elliði Snær Viðarsson leikmaður Gummersbach og íslenska landsliðsins eins og Viggó, Elvar Örn og Ómar Ingi, er á meðal markahæstu línumanna þýsku 1. deildarinnar. Eyjamaðurinn hefur skorað 57 mörk í 14 leikjum, er með 70,3% nýtingu auk fimm stoðsendinga.