- Auglýsing -
- Auglýsing -

Víkingar héldu ekki út

Arnar Daði Arnarsson t.v. og Maksim Akbachev stýra liði Gróttu. Mynd/Eyjólfur Garðarsson
- Auglýsing -

Gróttumönnum var létt eftir að þeir unnu Víkinga í hörkuleik í Víkinni í kvöld í Olísdeild karla í handknattleik, 26:22, en jafnt var að loknum fyrri hálfleik, 13:13. Segja má að um svokallaðan fjögurra stiga leik hafi verið að ræða hjá liðunum í botnbaráttunni. Þess sáust merki á baráttunni og því sem lagt var í leikinn af beggja hálfu. Gróttumenn héldu hinsvegar skipulagi og sennilega var það þeirra lykill að sigrinum að þessu sinni.
Víkingar eru þar með áfram án stiga eftir níu leiki í Olísdeildinni eins og HK en liðin mætast í næstu umferð.


Víkingur fékk liðsstyrk fyrir viðureignina í Hamza Kablouti frá Aftureldingu, eins og hanbolti.is greindi frá í morgun. Hann var frekur til fjörsins eins og við mátti búast. Hann kom reyndar Víkingum inn í leikinn undir lok fyrri hálfleiks með fjórum mörkum í röð. Kablouti átti einnig þátt í að hleypa Gróttumönnum á fulla ferð upp úr miðjum síðari hálfleik. Víst er að kappinn eykur við sóknarþungann í liðinu en hvort það var alltaf til góðs er ekki gott að segja um. Fleiri leiki þarf væntanlega til dæma um það. Kablouti skoraði sjö mörk í 19 skotum að þessu sinni.


Eftir jafna stöðu í hálfleik þá byrjuðu Víkingar síðari hálfleik af krafti og náðu tvisvar sinnum tveggja marka forskoti. Tíu mínútna kafli sem tók við eftir að liðið náði tveggja marka forskoti í síðara skiptið varð hinsvegar slakur og á tíðum óagaður. Gróttumenn héldu sínu striki og skoruðu fimm af sex mörkum leiksins á átta mínútna kafla og komust þremur mörkum yfir. Eftir það kom ekkert í veg fyrir að stigin tvö færu í safnið hjá Seltirningum.


Einar Baldvin Baldvinsson kunni vel við sig á gamla heimavellinum í Víkinni og fór á kostum á milli stanganna í marki Gróttu. Munaði miklu um hans jafn góðu frammistöðu allan leikinn meðan botninn datt úr markvörslu Víkinga í síðari hálfleik í réttu hlutfalli við slakari varnarleik.

Mörk Víkings: Hamza Kablouti 7, Jóhannes Berg Andrason 6, Jóhann Reynir Gunnlaugsson 3/1, Arnar Steinn Arnarsson 3, Hjalti Már Hjaltason 2, Arnar Gauti Grettisson 1.
Varin skot: Jovan Kukobat 10, 30,3% – Sverrir Andrésson 2, 40%.
Mörk Gróttu: Ágúst Emil Grétarsson 8, Andri Þór Helgason 5/2 Hannes Grimm 3, Birgir Steinn Jónsson 3, Ólafur Brim Stefánsson 3, Gunnar Dan Hlynsson 2, Lúðvík Thorberg Arnkelsson 2.
Varin skot: Einar Baldvin Baldvinsson 19, 46,3%.

Stöðuna og næstu leiki í Olísdeild karla má sjá hér.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í stöðu- og textauppfærslu hér fyrir neðan.

17
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -