- Auglýsing -
- Auglýsing -

Viktor Gísli fékk tækifæri í sigurleik í Holstebro

Viktor Gísli Hallgrímsson, markvörður íslenska landsliðsins og GOG í Danmörku. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Viktor Gísli Hallgrímsson fékk tækifæri til að standa á milli stanganna í marki GOG þegar liðið vann TTH Holstebro, 37:28, í annarri umferð dönsku úrvalsdeildarinnar í kvöld. Leikið var í Holstebro á Jótlandi. Viktor Gísli var í marki GOG síðustu 15-20 mínúturnar og nýtti tækifærið vel, varði 4 skot og var með 33% markvörslu.


GOG var með mikla yfirburði í leiknum og hafði átta marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 19:11. Svíinn Jerry Tollbring sem kom til GOG í sumar skoraði átta mörk í 10 skotum og danski landsliðsmaðurinn, Mathias Gidsel, skoraði sjö mörk í níu skotum og átti tvær stoðsendingar.

GOG er með fjögur stig eftir tvo fyrstu leikina.

Léku hiklaust til sigurs

Aron Pálmarsson, Arnór Atlason og félagar í meistaraliðinu Aalborg Håndbold brenndu sig ekki á sama soðinu tvisvar. Þeir töpuðu fyrir SönderjyksE í fyrstu umferð á útivelli í leik þar sem Álaborgarliðið var fyrirfram talið sigurstranglegra. Í kvöld þá var leikið til sigurs frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu á móti Ringsted á heimavelli að viðstöddum um 5.000 áhorfendum, 38:30.


Aron skoraði þrjú mörk í fjórum skotum og átti þrjár stoðsendingar. Sebastian Barthold var markahæstur hjá Álaborgarliðinu með sjö mörk.

Erfitt hjá Elínu Jónu og samherjum

Elín Jóna Þorsteinsdóttir og samherjar hennar í nýliðum Ringköbing töpuðu fyrir Viborg á heimavelli, 31:25. Elín Jóna stóð lengst af í marki Ringköbing og varði 10 af 35 skotum sem á mark hennar bárust, 29%. Þetta var þriðja tap Ringköbing í deildinni. Liðið er fyrir vikið ennþá án stiga.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -