Viktor Gísli Hallgrímsson landsliðsmarkvörður í handknattleik hefur samið við Evrópumeistara Barcelona til ársins 2027. Félagið tilkynnti um komu Viktors Gísla í morgun. Hann kemur til félagsins í sumar eftir eins árs veru hjá Wisla Plock.
Sögusagnir um komu Viktors Gísla til Barlcelona hafa verið á kreiki síðasta árið. Viktor Gísli verður markvörður Barcelona með danska landsliðsmarkverðinum Emil Nielsen og ljóst að Evrópumeistararnir verða ekki á flæðiskeri staddir með tvo bestu markverði síðasta heimsmeistaramóts innan sinna raða.
„Draumur er rætast. Mig hefur dreymt frá æsku um að leika með Barcelona,“ er haft eftir Viktor Gísla á heimasíðu félagsins.
Fjórði Íslendingurinn
Viktor Gísli verður fjórði íslenski handknattleiksmaðurinn til þess að leika með Barcelona. Viggó Sigurðsson lék með liði félagsins 1979 til 1980. Eftir komu Guðjón Valur Sigurðsson frá 2014 til 2016 og Aron Pálmarsson 2017 til 2021.
Myndasyrpa: Viktor Gísli fór á kostum í Höllinni
Viktor Gísli er 24 ára gamall. Hann lék upp yngri flokka með Fram og steig sín fyrstu skref í meistaraflokki með félaginu. Sumarið 2019 gekk Viktor Gísli til liðs við GOG í Danmörku og var í þrjú ár. Þá tóku við tvö ár hjá Nantes uns hann skipti yfir til Wisla Plock síðasta sumar.
Viktor Gísli hefur leikið 71 landsleik og skorað tvö mörk.
✍️ 𝐕𝐢𝐤𝐭𝐨𝐫 𝐇𝐚𝐥𝐥𝐠𝐫𝐢́𝐦𝐬𝐬𝐨𝐧 𝐚𝐫𝐫𝐢𝐛𝐚𝐫𝐚̀ 𝐚𝐥 𝐁𝐚𝐫𝐜̧𝐚 𝐟𝐢𝐧𝐬 𝐚𝐥 𝟐𝟎𝟐𝟕
— Barça Handbol (@FCBhandbol) May 13, 2025
El porter islandès s’incorporarà al Club aquest estiu: https://t.co/XwztTroaDz pic.twitter.com/LUKEvOk9M3