„Ég er rólegur og skoða bara í rólegheitum á næstunni hvað tekur við,“ segir Gunnar Magnússon þjálfari karlaliðs Aftureldingar í handknattleik sem lætur af störfum hjá Aftureldingu í lok tímabilsins eftir fimm ár.
„Ég vil ekki vera of lengi á sama stað og tel að eftir fimm ár hjá Aftureldingu sé bara komið gott. Ég tók þá ákvörðun í haust að ef vel gengi í vetur þá myndi þetta vera síðasta tímabilið í Mosfellsbæ. Upp úr áramótum fundaði ég með Aftureldingarmönnum og sagði þeim frá ákvörðun minni um að láta gott heita í vor,“ segir Gunnar en komið er inn á þriðja áratug síðan hann hóf þjálfun meistaraflokka.
Sjá einnig: Stefán tekur við af Gunnari í Mosfellsbæ
Alls ekki að hætta
„Ég er alls ekki að hætta í þjálfun en hef svo sem ekkert í hendi ennþá. Við sjáum bara hvað setur,“ sagði Gunnar.
Í hópi bestu liða
„Við verum ennþá í baráttu um tvo titla og ætlum saman að leggja allt í sölurnar til þess að vinna þá. Á mínum árum hjá Aftureldingu höfum við verið í hópi bestu liðanna og meðal annars unnið bikarkeppnina einu sinni auk þess að leika til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn síðasta vor. Á sama tíma hefur orðið mikil endurnýjun í hópnum auk þess sem við höfum unnið markvisst í að byggja sem mest á okkar efniviði,“ segir Gunnar sem er ánægður með starf sitt hjá Afturelding en mikil endurnýjun hefur átt sér stað.
Stefán Árnason samstarfsmaður Gunnars síðustu þrjú tímabil tekur við Aftureldingarliðinu. Gunnar segir það sérstakt ánægjuefni að Stefán sem hafi verið sín hægri hönd verið sinn eftirmaður.
Ánægður með eftirmanninn
„Ég er stoltur af því að Stefán taki við. Ég fékk hann til félagsins fyrir þremur árum meðal annars með þetta fyrir augum. Nú er það að verða raunin,“ segir Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar í samtali við handbolta.is.
Sjá einnig: Mjög spenntur fyrir að taka við Aftureldingu
Gunnar Magnússon er einn reyndasti starfandi handknattleiksþjálfari landsins um þessar mundir. Auk Aftureldingar hefur Gunnar m.a. þjálfað hjá Víkingi, HK, ÍBV, Haukum til viðbótar að vera þjálfari Kristiansund-HK í Noregi um nokkurra ára skeið. Gunnar var árum saman aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins og nánasti samstarfsmaður Guðmundar Þórðar Guðmundssonar. Eftir að Guðmundur lét af störfum snemma árs 2023 tók Gunnar tímabundið við starfi landsliðsþjálfara ásamt Ágústi Þór Jóhannssyni.