- Auglýsing -
- Auglýsing -

Vill frekar leika handbolta á HM en æfa heima í Lemgo

Bjarki Már Elísson spreytir sig á móti Viktori Gísla Hallgrímssyni, markverði, á æfingu landsliðsins. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

„Aðstæðurnar er sérstakar, kannski mjög skrýtnar, en við munum gera það besta úr þessu öllum saman. Það er engin spurning,“ sagði Bjarki Már Elísson, landsliðsmaður í handknattleik og markahæsti leikmaður þýsku 1. deildinnar í handknattleik þegar handbolti.is hitti hann stuttlega að máli fyrir æfingu landsliðsins í handknattleik í Víkinni í morgun.


Framundan eru tveir leikir á fjórum dögum við Portúgal í undankeppni EM og síðan tekur við för til Egyptalands og þátttaka í heimsmeistaramótinu við aðstæður sem enginn hefur kynnst áður. „Það hefur gengið nokkuð vel hjá mér og Lemgo-liðinu við þessar aðstæður sem eru uppi þótt ég eigi afar erfitt með að venjast því að leika fyrir tómum íþróttahöllum í hverjum leiknum á fætur öðrum.“


Næst er að takast á við áhugavert og spennandi verkefni með landsliðinu í þessum mánuði auk þess sem næsta rúma vika mun fara í ferðalög. Fyrst til Portúgal og til baka og síðan til Egyptalands. Talsverður tími frá æfingum fer í að ferðast og koma sér fyrir.

Mjög sérstakt

„Það er furðulegt á þessum tímum að við skulum vera að fara til Portúgal og leika við þá. Þeir komi síðan í kjölfarið á okkur hingað til lands í einn leik áður en liðin fara saman til Egyptalands þar sem þau mætast í þriðja sinn 14. janúar á HM. Yfir þessu þýðir hinsvegar ekki að væla. Við verðum að takast á við þetta allt saman eins vel og mögulegt er. Þetta eru bara leikir og ferðalög. Æfingar verða ekki margar.“

Janus Daði Smárason, Bjarki Már Elísson, Gísli Þorgeir Kristjánsson, Arnar Freyr Arnarsson og fleir á æfingu landsliðsins í Vikinni í morgun. Mynd/Ívar

Bjarki Már segir að allir leikmenn hópsins eigi að vera í toppformi en hinsvegar geti allt tekið sinn tíma fyrir menn að stilla saman strengina sem lið. Þess utan þá geta komið upp smit innan liðanna fyrir og á HM. Hvernig menn mæta því og hvaða kostnað það hefur í för með sér verður fróðlegt að sjá hver verður.

Blessast vonandi allt

„Vonandi blessast þetta allt. Ég er mjög spenntur fyrir HM. Ég vil mikið frekar fara til Egyptalands og taka þátt í HM en að vera heima í Lemgo nánast í útgöngubanni og æfa þar tvisvar á dag en leika ekki í heilan mánuð. Af tveimur kostum er HM í Egyptalandi mikið álitlegri kostur,“ sagði Bjarki Már.

Skarð er fyrir skildi

Skarð er fyrir skildi að Aron Pálmarssonar verður ekki með landsliðinu á HM. Bjarki Már sagði mikinn söknuð vera í Aroni. „Þegar maður leit yfir hópinn með Aroni þá var útlitið mjög gott. Hópurinn er vel skipaður og margir leikmenn sem hafa leikið vel með sínum félagsliðum auk margra spennandi ungra stráka. Með Aron í þeim hópi gat maður búist við að allt gæti gerst hjá okkur. Við reynum að gera það besta úr stöðunni þótt ljóst sé að enginn okkar mun geta fyllt það skarð sem Aron skilur eftir sig. Hann er einn besti handknattleiksmaður heims. En það er okkar að leita að öðrum lausnum þegar Arons nýtur ekki við,“ sagði Bjarki Már Elísson, landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is í morgun.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -