- Auglýsing -
- Auglýsing -

Vildi ólm fara aftur inn á völlinn

Margrét Ýr Björnsdóttir, markvörður HK, í eldlínunni í leik við Íslands-og bikarmeistara KA/Þórs á dögunum. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Margrét Ýr Björnsdóttir markvörður HK átti stórleik gegn Stjörnunni í viðureign liðanna í 6. umferð Olísdeildarinnar í handknattleik í gær, leik sem Margrét Ýr og samherjar unnu 34:28. Hún varði 13 skot, þar af tvö vítaköst. Samtals gerði þetta 34% hlutfallsmarkvörslu.

Margrét Ýr fór úr lið á litla fingri hægri handar eftir um tíu mínútur í síðari hálfleik. Hún lét það ekki slá sig út af laginu heldur mætti aftur til leiks eftir nokkrar mínútur. Þá hafði fingrinum verið kippt í lið og höndin teipuð.

Sjúkraþjálfari Stjörnunnar kippti í lið

„Ég fékk boltann framan á fingurinn og hann fór úr lið. Sjúkraþjálfari Stjörnunnar, Tinna Jökulsdóttir, kippti fingrinum aftur í lið. Svo var bara teipað og ég hélt áfram. Ég þakka Tinnu kærlega fyrir,“ sagði Margrét Ýr þegar handbolta.is hitti hana eftir leikinn í gær þar sem hún hélt ísmolapoka við liðin og fingurinn sem fór úr lið.

Kom ekkert annað til greina

„Ég vildi ólm fara inn á völlinn aftur. Annað kom alls ekki til greina. Fyrsta skotið sem ég fékk á mig eftir að kom aftur til leiks var skot eftir hraðaupphlaup sem fór beint á hægri höndina. Það var vont. Núna er svolítið aum en ég reikna með að þetta grói áður en ég gifti mig,“ sagði Margrét Ýr létt í bragði og bætti við. „Ef ég verð ekkert skárri á morgun þá fer ég af stað og læt skoða þetta.”

Tók fram skóna í fyrra

Margrét Ýr, sem stendur á þrítugu, segir að ekki hafi staðið til hjá sér í sumar að leika með HK-liðinu í Grill66-deildinni. Hún tók fram skóna sumarið 2020 eftir tveggja ára hlé og lék með Aftureldingu í fyrra, fyrst og fremst til þess að styðja við bakið á Evu Dís Sigurðardóttir, eins og hún segir sjálf.

Stóð ekki til að leika í Olísdeild

„Ég skipti svo aftur yfir í mitt gamla góða félag, HK, í sumar. Stefnan var að vera með stelpunum í U-liðinu. Það breyttist þegar Selma [Jóhannsdóttir] dró sig í hlé. Þá var ekkert annað að gera en að taka slaginn af fullum krafti,“ sagði Margrét Ýr sem hefur lengst af verið með HK en var einnig um skeið með ÍR auk Aftureldingar í Grill66-deilldinni á síðasta keppnistímabili.


Það var ekki síst að þakka frábærri frammistöðu Margrétar í fyrri hálfleik gegn Stjörnunni í gær, þegar hún var með um 40% markvörslu, að HK vann upp gott forskot fyrir síðari hálfleikinn. Hún varði nokkur skot Stjörnukvenna þegar þær voru komnar í opin færi, einar gegn Margréti Ýr.

Samvinna – reyni að hjálpa

„Ég tók nokkra góða bolta. Allt er þetta samvinna. Ég reyni að hjálpa til þegar eitthvað klikkar í vörninni og öfugt. Stelpurnar aðstoða mig og auðvelda mér að verja með því að taka sitt.
Ég er ánægð með að hafa náð heilum leik góðum. Það er mjög mikilvægt,“ sagði Margrét Ýr sem var ánægð með öruggan sigur á Stjörnunni í gær.

Settum okkur markmið

„Þetta var mjög góður leikur hjá okkur. Við settum okkur það markmið að byggja smátt og smátt ofan á það sem við höfum gert vel á keppnistímabilinu. Það hefur skilað okkur fimm stigum í síðustu þremur leikjum. Sóknarleikur okkar hikstaði aðeins í byrjun móts en hefur sannarlega verið frábær í síðustu leikjum. Þetta eru flottar stelpur í liðinu.

Erfiður leikur næst

Við eigum erfiðan leik næst þegar við sækjum Aftureldingu heim. Þær hafa sótt í sig veðrið eins og við. Þótt Afturelding hafi ekki fengið stig ennþá er alveg víst að Aftureldingarliðið mun mæta brjálað gegn okkur og leggja allt í sölurnar til að taka stig af okkur.


Ef við höldum áfram að leika eins og við höfum gert í síðustu þremur leikjum þá erum við til alls líklegar. En ef við ætlum að vera með hik þá getur illa farið,“ sagði Margrét Ýr Björnsdóttir markvörður HK í samtali við handbolta.is í gær.

Staðan í Olísdeild kvenna er hér.

Handboltamælaborð Olísdeilda kvenna og karla þar sem tölfræðin er sett fram á myndrænan hátt. Smellið hér.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -