„Ungverjar eru með massíft lið, ekki síst varnarlega,“ segir Heimir Ríkarðsson annar þjálfara 18 ára landsliðs karla í handknattleik sem mætir Ungverjum í leiknum um bronsverðlaun á Evrópumeistaramótinu í Podgorica í Svartfjallalandi klukkan 15 í dag.
„Við verðum að eiga góðan leik til þess að vinna og erum allir sammála um það að enda mótið á betri leik en gegn Dönum á föstudaginn. Við viljum koma heim með bronsverðlaunin,“ segir Heimir
Þrjár vikur frá síðasta leik
Réttar þrjár vikur eru síðan lið Íslands og Ungverjalands mættust á æfingamóti í Ungverjalandi. Íslenska liðið hafði betur, 31:25. „Þrátt fyrir að Ungverjar hafi á að skipa góðu varnarliði þá tókum við þá með okkar varnarleik á æfingamótinu fyrir þremur vikum. Varnarleik og hraðaupphlaupum,“ segir Heimir og rifjar upp leikinn. Hann segir þá viðureign vera að baki og í dag taki nýr leikur við. Liðin þekkist vel og hafi einnig haft góð tækifæri á síðustu dögum til þess að afla sér betri upplýsinga um hvort annað.
Í einstakri stöðu
„Við erum fullir tilhlökkunar. Það eru forréttindi að komast í þá stöðu að leika til úrslita um verðlaun á stórmóti. Það eru 20 önnur lið á mótinu sem vildu vera í þessum sporum en eru það ekki. Við verðum bara að njóta stundarinnar,“ segir Heimir sem finnur að það er mikill hugur í íslensku piltunum.
Mæta af krafti
„Þeir vilja bæta upp fyrir tapið fyrir Dönum í undanúrslitum. Ég hef ekki nokkrar áhyggjur af öðru en að menn komi af fullum krafti inn í leikinn,“ segir Heimir Ríkarðsson annar þjálfara U18 ára landsliðs karla í samtali við handbolta.is
Viðureign Íslands og Ungverjalands um bronsverðlaunin á EM hefst klukkan 15. Handbolti.is heldur sínu striki og verður með textalýsingu frá leiknum eins og frá fyrri viðureignum íslenska landsliðsins á mótinu.
EMU18 karla: Leikir, úrslit og staðan, milliriðlar og sætisleikir