Heims- og Evrópumeistarar Noregs í handknattleik kvenna tryggðu sér í kvöld sæti í milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins með stórsigri, 45:28, í rífandi góðri stemningu í DNB Arena í Stafangri í kvöld að viðstöddum rúmlega fjögur þúsund áhorfendum. Austurríska liðið sá aldrei til sólar í leiknum. Það stendur engu að síður vel að vígi í kapphlaupinu um sæti í milliriðlakeppninni.
Leikhlé eftir tvær mínútur
Norska landsliðið sló upp sýningu í kvöld. Hinn þrautreyndi þjálfari austurríska liðsins, Þjóðverjinn Herbert Müller, tók leikhlé eftir tveggja mínútna leik þegar norska landsliðið hafði skorað þrjú mörk án svars frá austurríska liðinu. Leikhléið breytti engu. Norska liðið lék við hvern sinn fingur og var með níu marka forskot í hálfleik, 21:12.
Áfram dunaði dansinn í síðari hálfleik. Norðmenn, undir stjórn Selfyssingsins Þóris Hergeirssonar, buðu upp á vínarpolka, vals og ræl. Fór þar fremst í flokki Henny Reistad. Hún skoraði 10 mörk í 11 skotum og var valin besti maður leiksins. Heimakonan Camilla Herrem var næst með sex mörk í sex skotum.
Yfirburðir norska liðsins voru slíkir að ekki var nauðsynlegt að tefla fram Noru Mørk sem kom inn í leikmannahópinn í kvöld eftir að hafa setið yfir í viðureigninni gegn Grænland í fyrrakvöld.
Herbert Müller þjálfari austurríska liðsins sagði á blaðamannafundi eftir leikinn að lið hans hafi aldrei leikið gegn jafn góðu liði og því norska. „Það lék sér að okkur eins og köttur að mús,“ sagði Müller. Þórir var auðmýktin uppmáluð þegar Müller sló liði hans gullhamra. Þórir sagði undirbúning leiksins hafa verið góðan. Ástæða hafi svo sannarlega verið til þess þar sem miklar framfarir hafi átt sér stað hjá austurríska kvennalandsliðinu á síðustu árum.
Naumt hjá Dönum
Danir hófu keppni á heimsmeistaramótinu í Herning í kvöld. Þeim tókst að vinna Serba, 25:21, eftir mikinn barning. Serbar voru með frumkvæði í leiknum í 45 mínútur og var farið að fara um áhorfendur í Jyske Bank Boxen í Herning. Serbar voru yfir í hálfleik, 12:10.
Emma Friis og Kristina Jørgensen skoruðu fimm mörk hvor fyrir danska landsliðið. Sanja Radosavljevic og Jovana Jovovic skoruðu einnig fimm mörk hvor fyrir serbneska landsliðið.