Ungmennalið Selfoss vinnur hvern leikinn á fætur öðrum þessa dagana. Í kvöld lagði liðið Kórdrengi með fimm marka mun, 33:28, í Sethöllinni á Selfossi í skemmtilegum leik þar sem aðeins einu marki munaði á liðunum að loknum 30 mínútum, 15:14.
Selfoss er þar með komið upp í fimmta sæti deildarinnar með 12 stig og er fjórum stigum á undan ungmennaliði Hauka sem lagði ungmennalið Aftureldingar að Varmá í gær, 28:26. Litlum öðrum sögum fer af þeirri viðureign enda hefur skýrsla leiksins sennilega fallið á milli stafs og hurðar.
Nýliðar Kórdrengja gerðu hvað þeir gátu í kvöld til þess að krækja í stig en allt kom fyrir ekki. Í liðið vantaði hinn leikreynda Matthías Daðason. Eiríkur Guðni Þórarinsson lék á hinn bóginn sinn fyrsta leik með Kórdrengjum eftir að hafa verið lánaður til liðsins frá FH.
Kórdrengir eru með fjögur stig eftir sjö leiki í áttunda sæti af 11 liðum deildarinnar.
Mörk Selfoss U.: Tryggvi Sigurberg Trauastason 7, Guðjón Baldur Ómarsson 6, Vilhelm Freyr Steindórsson 5, Sölvi Svavarsson 4, Gunnar Flosi Grétarsson 4, Árni Ísleifsson 2, Sæþór Atlason 2, Elvar Elí Hallgrímsson 1, Sigurður Snær Sigurjónsson 1, Einar Ágúst Ingvarsson 1.
Mörk Kórdrengja: Hinrik Geir Helgason 6, Þorlákur S. Sigurjónsson 6, Egill Björgvinsson 5, Tómas Helgi Wehmeier 4, Stefán Mickael Sverrisson 3, Eiríkur Guðni Þórarinsson 3, Sigurður Karel G. Bachmann 1.
Stöðuna og næstu leiki í Grill66-deild karla má sjá hér.