- Auglýsing -
- Auglýsing -

Virðast með skemmtilegt lið

Ýmir Örn Gíslason er klár í slaginn gegn Alsír annað kvöld á HM. Mynd/EPA
- Auglýsing -

„Alsírbúar leika svolítið öðruvísi handbolta en við eigum að venjast. Þeir eru líkamlega sterkir og svolítið villtari í sínum leik en margir aðrir,“ sagði Ýmir Örn Gíslason, landsliðsmaður í handknattleik þegar handbolti.is hitti hann að máli á hóteli því sem íslenska landsliðið í handknattleik dvelur á í Kaíró þessa daga vegna heimsmeistaramótsins í handknattleik. Framundan er leikur við Alsír annað kvöld klukkan 19.30.


„Það getur verið erfitt að ráða við Alsírbúa og þeirra villta leik. Að minnsta kosti er það mín tilfinning eftir að hafa séð nokkur atriði úr leik þeirra við Marokkó í gær. Þeir virðast vera með skemmtilegt lið, sýndist mér,“ sagði Ýmir Örn ennfremur  og bætir við að það verði krefjandi að mæta Alsírbúum og árásum þeirra á vörnina, en Ýmir Örn mun væntanlega standa í hjarta íslensku varnarinnar í leiknum eins og hann hefur gert í undanförum viðureignum.

Góður línumaður

„Alsírbúar er þungir, snöggir og eru góðir skotmenn. Línumaðurinn er virkilega góður og þeir leita mikið að honum. Vörnin okkar verður að vera þétt og vinna vel saman sem ein heild og ná að brjóta eins oft á þeim og hægt er og brjóta þannig niður sóknarleikinn. Að sama skapi verðum við „keyra“ hressilega á þá. Nýta hraðaupphlaupin,“ sagði Ýmir Örn.

Alsír er þegar komið með tvö stig í keppninni meðan íslenska landsliðið er án stiga. Alsír er þar með komið með annan fótinn í milliriðlakeppnina þangað sem íslenska liðið ætlar sér einnig að fara.

„Við verðum að vinna þá tvo leiki sem eftir eru í riðlakeppninni en til þess verða allir að vera vakandi og halda áfram að leika þá góðu vörn sem við höfum verið með í undanförnum leikjum. Markvarslan kemur með enda erum við með þrjá góða markverði. Sóknarleikurinn var frábær gegn Portúgal á sunnudag. Það vantaði aðeins upp á í gær en hann mun koma. Aðalmálið er að halda áfram. Þá kemur þetta hjá okkur,“ sagði Ýmir Örn Gíslason, landsliðsmaður í handknattleik við handbolta.is í Kaíró í dag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -