Norska handknattleikskonan, Nora Mørk, virðist hafa sloppið betur en í fyrstu var óttast eftir að hún fann smell í vinstra hnénu í kappleik Vipers og Rostov-Don í Meistaradeild Evrópu í fyrrakvöld. Mørk hefur farið í ítarlega skoðun í Ljubljana í Slóveníu. Niðurstaðan bendir til að krossband, liðbönd og liðþófi hafi ekki skaddast og að Mørk geti innan nokkurra vikna leikið handknattleik á ný.
Ole Gustav Gjekstad, þjálfari Vipers, segir í samtali við TV2 í Noregi, þungu fargi vera létt af Mørk og öllum í liðinu. Í fyrstu var jafnvel óttast að krossband í vinstra hné hafi gefið sig en það slitnaði árið 2019.
Mørk heldur heim til Noregs í dag og fer í sóttkví meðan aðrir leikmenn Vipers leika sinn síðasta leik í riðlakeppni Meistaradeildarinnar á morgun gegn Krim í Ljubljana.
Eftir sóttkví heima í Noregi stendur til að Mørk fari aftur í skoðun hjá lækni Vipers.
Mörk, sem var markadrottning og besti leikmaður EM kvenna í desember, hefur á undanförnum árum verið einstaklega óheppin með alvarleg meiðsli. Hún var m.a. í ár frá keppni áður en hún tók upp þráðinn við æfingar síðla á síðasta sumri.