- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Væntanlega einangrað tilfelli

Danska meistaraliðið Aalborg hefur átt góðu gengi að fagna í Meistaradeild Evrópu á leiktíðinni. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Einn leikmaður danska meistaraliðsins Aalborg Håndbold hefur greinst smitaður af kórónuveirunni og er í einangrun. Arnór Atlason, aðstoðarþjálfari Aalborg-liðsins, sagði við handbolta.is í dag að vonir standi til að um einangrað tilfelli sé að ræða. Enginn annar úr hópi leik,- eða starfsmanna liðsins finni til einkenna auk þess sem liðið hafi ekki hist frá því á laugadaginn að það lék í dönsku úrvalsdeildinni og þar til leikmaðurinn greindist í gær.


Til stendur að Aalborg mæti Celje frá Slóveníu á heimavelli í Meistaradeildinni á fimmtudagskvöld. Eins og staðan er núna er leikurinn á dagskrá.


Arnór og félagar hafa verið nær daglega í kórónuveiruprófum síðustu vikuna vegna þess að þeir léku við Motor í Úkraínu á síðasta fimmtudag í Meistaradeildinni. Eftir heimkomuna á föstudag hefur liðið verið í vinnusóttkví, aðeins mátt fara út úr húsi til æfinga og vegna þátttöku í leik í dönsku úrvalsdeildinni á laugardaginn.


„Við vorum allir testaðir á fimmtudagsmorgun í Úkraínu, aftur um miðnætti sama dag þegar við lentum í Álaborg. Svo æfðum við á föstudag, spiluðum á laugardaginn við BSH og svo var test í gær þar sem einn greindist. Svo er aftur test á morgun og enn annað á fimmtudaginn,“ sagði Arnór við handbolta.is


„Við höfum sloppið ótrúlega vel. Erum búnir með þrettán leiki í Meistaradeildinni án þess að lenda í neinu,“ sagði Arnór ennfremur.
Leikurinn við Celje á fimmtudaginn er Aalborg afar mikilvægur því liðið á enn möguleika á að tryggja sér þriðja sæti B-riðils Meistaradeildarinnar. Riðlakeppninni á að ljúka í vikunni.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -