„Reynsla mín af leikjum við Ungverja hefur verið slæm hingað til, að einum leik undanskildum. Vonandi verður hún jákvæð að þessu sinni. Það er kominn tími til. Ég vona að við séum búnir að læra af reynslunni hvað varast ber gegn ungverska liðinu,“ segir Bjarki Már Elísson landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður ungverska meistaraliðsins One Veszprém.
„Ungverjarnir eru stórir og sterkir. Fyrir vikið verðum við að vera mjög þéttir varnarlega. Þeir munu væntanlega vera frekar aftarlega í vörn gegn okkur. Fyrir vikið verðum við að leika mjög agaðan leik, halda einbeitingu og sjálfstrausti. Það verður lykillinn að sigri okkar, að mínu mati,“ segir Bjarki Már sem hefur leikið með eða gegn flestum leikmönnum ungverska landsliðsins á árum sínum hjá One Veszprém.
Höfum ekki mætt mótlæti
„Við höfum ekki mætt alvöru mótlæti í fyrstu leikjunum tveimur á móti Póllandi og Ítalíu. Við vorum lengi í gang en annað hefur það. Ég reikna hins vegar með að við getum mætt mótlæti í leiknum við Ungverja. Þá mun miklu máli skipta að halda ró og skipulagi, vinna sig út úr vandanum. Ekki fara í það sem þeir munu örugglega þvinga okkur til, sem og spænski stíllinn, ekki síst varnarlega. Chema Rodriguez þjálfari Ungverja er frábær þjálfari,“ segir Bjarki Már og bætir við.
„Það verður þolinmæðisverk að vinna leikinn.“
Ísland verður í öðrum milliriðli og leikur 23., 25., 27. og 28. janúar í Malmö Arena. Víst er að auk Ungverja verða Króatar, Svíar og Slóvenar með í riðlinum auk annað hvort Færeyinga eða Svisslendinga. Leikjaniðurröðun liggur fyrir fljótlega eftir að leikjum verður lokið í D- og F-riðlum í kvöld.




