- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Vonbrigði að leika okkar lélegustu 40 mínútur á tímabilinu

Víkingur féll úr Olísdeildinni í vor en hefði farið í umspil samkvæmt nýtti tilhögun deildarkeppninnar. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Það eru vonbrigði að leika okkar lélegustu 40 mínútur á tímabilinu í kvöld og það í leik sem við reiknuðum með að vera að mæta í alvörustríð til að ná í tvö stig,“ sagði Jón Gunnlaugur Viggósson þjálfari Víkinga í samtali við handbolta.is í Kórnum í kvöld eftir að lið hans tapaði, 30:27, fyrir HK í 9. umferð Olísdeildar karla. Víkingar voru fimm mörkum undir, 17:12, að loknum fyrri hálfleik. HK var níu mörk yfir, 26:17, þegar 12 mínútur voru til leiksloka þegar leikmenn Víkings lifnuðu skyndilega við.

Menn voru kærulausir

„Við mættum alltof rólegir inn í leikinn. Verandi komnir með sex stig í deildinni þá vissu menn að HK gæti ekki náð okkur þótt við myndum tapa. Ég held að menn hafi bara verið kærulausir og fengu að kynnast því,“ sagði Jón Gunnlaugur sem var skiljanlega daufur í bragði.

Eftir 20 mínútna leik var staðan jöfn, 10:10. Eftir það tók nánast við svartnætti í leik Víkings þangað til 12 mínútur voru eftir af leiktímanum og staðan 26:17, HK í vil.

Sigurjón var munurinn

„Varnarlega voru við mjög soft. Af því leiddi að markvarslan var mjög slök á sama tíma og Sigurjón var frábær í marki HK. Hann var munurinn á liðunum þegar upp var staðið því mér fannst HK ekki leika stórkostlega. Við vorum bara mjög slakir þangað til í lokin. Ég er ánægður með að menn hresstust á síðustu mínútum. Við áttum meira að segja möguleika á að fá eitthvað út úr leiknum þegar munurinn var kominn niður í tvö mörk og við með boltann,“ sagði Jón Gunnlaugur.

Einföld skilaboð

Spurður hvað hann hafi sagt við sína menn í leikhléinu 12 mínútum fyrir leikslok og níu mörkum undir sagði Jón Gunnlaugur það hafa verið einfalt. „Við fórum í sjö á sex í sókninni og bökkuðum niður í sex núll vörn með von um að þeir færu að stökkva upp og skjóta. Það gekk upp hjá okkur en nægði ekki til þess að fá eitthvað út úr leiknum,“ svaraði Jón Gunnlaugur.

Innbyrðisviðureign getur skipt miklu

„Huggun harmi gegn er að það getur skipt máli þegar upp verður staðið í vor að það muni um að hafa tapað með þremur mörkum frekar en níu. Innbyrðisviðureign getur skipt miklu mál. Hinsvegar breytir það ekki vonbrigðum mínum yfir að hafa mætt svona í leikinn þegar jafn mikið var undir og raun bar vitni um,“ sagði Jón Gunnlaugur Viggósson þjálfari karlaliðs Víkings í samtali við handbolta.is í kvöld.

Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.

Mörk HK: Atli Steinn Arnarson 8, Jón Karl Einarsson 6, Hjörtur Ingi Halldórsson 5/3, Sigurður Jefferson Guarino 3, Elías Björgvin Sigurðsson 3, Aron Gauti Óskarsson 2, Hafsteinn Óli Berg Ramos Rocha 1, Sigurvin Jarl Ármannsson 1, Kristján Ottó Hjálmsson 1.
Varin skot: Sigurjón Guðmundsson 19/1, 42,2% – Róbert Örn Karlsson 0.

Mörk Víkings: Halldór Ingi Óskarsson 5/3, Sigurður Páll Matthíasson 4, Halldór Ingi Jónasson 4, Jóhann Reynir Gunnlaugsson 4, Styrmir Sigurðarson 3, Þorfinnur Máni Björnsson 2, Stefán Scheving Guðmundsson 2, Agnar Ingi Rúnarsson 2, Daníel Örn Griffin 1.
Varin skot: Daníel Andri Valtýsson 5, 17,2% – Bjarki Garðarsson 1, 14,3%.

Stigin eru það eina sem skiptir okkur máli

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -