- Auglýsing -
- Auglýsing -

Vonbrigði að vera ekki í meiri einangrun frá öðrum gestum

Róbert Geir Gíslason framkvæmdastjóri HSÍ. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Í ljósi aðstæðna í heiminum um þessar mundir þá gerðum við okkur vonir um að búa í meiri búbblu en raun ber vitni um,“ sagði Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands þegar handbolti.is spurði hann út í aðstæður á hóteli íslenska landsliðsins í Búdapest. Talsverð umræða hefur víða verið á meðal þjálfara og leikmanna liða sem taka þátt í EM um að pottur sé brotinn í sóttvörnum á mótinu. Hafa sumir tekið stórt upp í sig í þeim efnum.


„Á hótelinu okkar er talsvert um almenna gesti sem fara um lobbíið og búa á sömu hæðum og liðin sem á því eru. Við erum með sér álmu á hæðinni okkar en því miður þá eru gestir á vappi í kringum okkur, meðal annars grímulausir, á göngunum og í lyftum. Ég viðurkenni að það hefur valdið okkur vonbrigðum að vera ekki meira einangraðir frá öðrum gestum en raun ber vitni um.

Þess vegna höldum við fast í allar okkar sóttvarnarreglur og höfum frekar hert róðurinn en hitt til þess að vernda okkur eins mögulegt er. Höfum í heiðri allar reglur varðandi spritt og grímur auk þess sem við höldum okkur eins mikið út af fyrir okkur og hægt er. Menn fara ekkert út af hótelinu á kaffihús svo dæmi sé tekið eða blanda geði við fólk utan hópsins okkar sem telur 30 manns,“ sagði Róbert.

Sama hlaðborðið

Leikmenn íslenska landsliðsins hafa afmarkað svæði á veitingastað til þess að snæða máltíðir. Galli er þó á að sögn Róberts og hann er m.a. sá að menn verð að sækja mat í hlaðborð sem stendur öllum gestum hótelsins til boða. Til þess að draga út smithættu þá klæðast menn einnota hönskum hvert sinn sem þeir þurfa að snerta á áhöldum sem allir matargestir ganga um. „Sameiginleg svæði eru þau hættulegustu. Þar verður að fara mjög varlega.“

Engin grímuskylda

Róbert sagði eftir því sem hann vissi best væri ekki grímuskylda í Ungverjalandi. Hinsvegar er grímuskylda á mótinu.

„Fyrst og fremst snýst þetta allt um að við gætum að okkur eins og kostur er. Einstaklingsbundnar sóttvarnir eru númer eitt, tvö og þrjú. Fari allir eftir reglum eigum við komast í gegnum þetta eins og við gerðum í Egyptalandi fyrir ári síðan,“ sagði Róbert sem telur ekki vera neinar líkur á að til meiri aðskilnaðar almennra gesta og íþróttamanna komi á hótelunum á meðan mótið stendur yfir.

Heitar umræður

„Tæknifundur mótsins fór fram í gær og stóð yfir í tvær og hálfa klukkustund. Þar voru heitar umræður um þessi mál. Á fundinum kom skýrt fram að ekki verða breytingar á reglunum úr þessu, alltént stendur ekki til að herða á þeim. Það er alveg ljóst,“ sagði Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands og aðalfararstjóri íslenska landsliðsins á Evrópumeistaramótinu.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -