- Auglýsing -
- Auglýsing -

Vonsvikinn að vinna ekki en virðir stigið

FH-ingurinn Egill Magnússon skoraði sex mörk fyrir FH gegn Þór. Mynd/ J.L.Long
- Auglýsing -

„Við vorum komnir í stöðu til að vinna leikinn. Þess vegna er það svekkjandi að ekki hafa náð báðum stigunum. En svona eru þessi leikir. Það er ekkert í hendi,“ sagði Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, við handbolta.is í gærkvöld eftir jafntefli við Hauka, 29:29, í viðureign liðanna í Olísdeild karla í handknattleik í Kaplakrika.


FH-ingar áttu síðustu sókn leiksins en vantaði eina til tvær sekúndur upp á að ljúka henni áður en leiktíminn var úti í þann mund sem hornamaðurinn Birgir Már Birgisson stökk inn úr hægra horni á auðum sjó.
„Við virðum stigið og förum að einbeita okkur fljótlega að næsta leik,“ sagði Sigursteinn en FH mætir ÍR í Krikanum á fimmtudagskvöld.


Spurður sagðist Sigursteinn hafa verið nokkuð ánægður með varnarleikinn þótt markvarslan hafi oft verið betri en hún var að þessu sinni.

„Sóknarleikurinn var ágætur og Egill Magnússon var öflugur. Leikurinn kom svolítið til hans að þessu sinni. Egill kemur með aðra vídd inn í sóknarleikinn okkar. Hann nýtti sín tækifæri vel í kvöld,“ sagði Sigursteinn. Spurður hver staðan væri á Agli en hann hefur verið talsvert frá vegna meiðsla svaraði Sigursteinn að Egill væri jafnt og þétt að koma til .

„Við höfum sett okkur það markmið að koma honum í gott stand jafnt og þétt enda vitum við að mikið er eftir af deildarkeppninni. Við trúum á okkar áætlun og Egill hefur verið duglegur að vinna í sínum málum.

Framfarir eru markmiðið

FH hefur 12 stig að loknum níu leikjum í Olísdeildinni, er stigi á eftir Haukum og Aftureldingu sem eru í tveimur efstu sætum. „Deildin er jöfn og það þýðir ekki að velta sér mikið upp úr stöðunni dag frá degi. Við horfum frekar til þess að taka framförum með hverjum leiknum sem líður. Ef okkur tekst það þá veit ég að við endum á góðum stað þegar upp verður staðið í vor,“ sagði Sigursteinn.

Á eftir að batna

Spurður hvernig honum þyki handknattleikurinn í deildinni fara af stað eftir fjögurra mánaða hlé frá keppni og nærri þriggja mánaða æfingabann svaraði Sigursteinn. „Mér finnst liðin komast nokkuð vel út úr pásunni. Þau hafa greinilega unnið vel í sínum málum. Gæðin eiga eftir að aukast meira eftir því sem á líður tímabilið,“ sagði Sigursteinn Arndal, þjálfari FH.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -