- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Vonsvikinn yfir að hafa ekki unnið

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals. Mynd/Björgvin Franz
- Auglýsing -

„Ég er vonsvikinn yfir að hafa ekki unnið leikinn með tveggja til þriggja marka mun. Frammistaða liðsins var frábær, ekki síst var varnarleikurinn framúrskarandi. Okkur tókst ítrekað að koma þeim í vandræði,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari Vals í samtali við handbolta.is í gærkvöld eftir að Valur tapaði með einu marki, 27:26, fyrir þýsku bikarmeisturunum Lemgo í fyrri leik liðanna í annarri umferð Evrópudeildarinnar í handknattleik í Origohöllinni.


„Þegar á leið síðari hálfleik dró af okkur í sókninni um leið og markvörður þeirra [Peter Johannesson] tók að verja allt hvað af tók. Það er helsta ástæðan fyrir að okkur tókst ekki að halda forystu og vinna leikinn,“ sagði Snorri Steinn ennfremur.

Áhersla lögð á varnarleikinn

Snorri Steinn sagði að mikil vinna og áhersla hafi verið lögð í varnarleikinn og hún hafi skilað sér þegar á hólminn var komið. „Mér fannst menn lesa vel í aðstæður og þá stöðu sem kom upp hverju sinni. Við gerum það mjög vel. Leikmenn Lemgo voru ítrekað við það að fá á sig dæmda töf og skoruðu sennilega þrjú mörk með skoti á síðustu sendingu, nokkuð sem er mjög svekkjandi þegar svona fáum mörkum munar á liðunum,“ sagði Snorri Steinn.

Hefði verið gott að hafa annan

Markvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson fékk rautt spjald eftir liðlega 20 mínútna leik í fyrri hálfleik eftir að hann og Bjarki Már Elísson, leikmaður Lemgo, rákust saman inni í vítateig Vals í hraðaupphlaupi. Snorri Steinn vildi ekki leggja mat á brotið eða á dóminn fyrr en að hann hafi séð upptöku af því. Vissulega hafi liðið saknað Björgvins Páls þótt Motoki Sakai hafi gert sitt besta í markinu það sem eftir var leiks. „Það hefði verið gott að hafa annan markvörð á bekknum, því er ekki að leyna þótt Sakai hafi varið á köflum vel.

Nær því að vera vonlaus

Dómgæslan var nær því að vera vonlaus en að vera allt í lagi. Það er svo sem alveg viðbúið að það væri aðeins dæmt með þeim. Sama verður upp á teningnum í síðari leiknum í Þýskalandi. Við megum hinsvegar ekki svekkja okkur á dómgæslunni heldur taka það jákvæða í okkar leik með úr þessu þegar upp er staðið,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari Vals í samtali við handbolta.is í gærkvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -