„Það er vissulega svekkjandi að tapa þessum leik en ég held engu að síður að við höfum sýnt margt gott í okkar leik og náð að sýna að við erum á pari við Sävehof,“ sagði Sigursteinn Arndal þjálfari FH í samtali við samfélagsmiðla félagsins í kvöld eftir fjögurra marka tap FH, 30:26, fyrir sænska liðinu Sävehof í Partille í Svíþjóð.
Sävehof var þremur mörkum yfir í hálfleik, 16:13. Þar með eru liðin jöfn að stigum H-riðli með tvö stig hvort eftir fjóra leiki. Fenix Toulouse vann Gummersbach, 31:30, í Frakklandi og hefur hvort lið sex stig.
Þriggja vikna hlé verður nú gert á riðlakeppni Evrópudeildar vegna landsleikja í undankeppni EM í fyrri hluta nóvember.
„Á fimm mínútna kafla í fyrri hálfleik nær sænska liðið þriggja marka forskoti sem við erum að elta eftir það allt til leiksloka,“ sagði Sigursteinn ennfremur og bætti við að nýting dauðafæra hafi verð lakari hjá FH-liðinu en Sävehof auk þess sem FH-ingar hafi oftar verið utan vallar en andstæðingurinn.
„Við erum í þessari keppni til þess að læra af frammistöðunni og við getum klárlega lært mikið af þessum leik,“ sagði Sigursteinn ennfremur en FH vann fyrri viðureignina við Sävehof í Kaplakrika fyrir viku, 34:30.
Mörk FH: Símon Michael Guðjónsson 6, Jón Bjarni Ólafsson 4, Jóhannes Berg Andrason 4, Garðar Ingi Sindrason 4, Birgir Már Birgisson 3, Ágúst Birgisson 2, Ásbjörn Friðriksson 1, Ingvar Dagur Gunnarsson 1, Jakob Martin Ásgeirsson 1.
Varin skot: Daníel Freyr Andrésson 6, 21,4% – Birkir Fannar Bragason 3, 30%.
Mörk IK Sävehof: Gustaf Wedberg 5, Ísak Vedelsbøl 5, Óli Mittún 5, Pontus Brolin 3, Olle Ek 3, Magnus Persson 3, Emil Berlin 2, Adam Blanche 2, Sebastian Spante 1.
Varin skot: Oscar Sävinger 17, 40,4% – Arvid Norén 0.