„Þetta var hriklega vel spilaður og góður leikur. Það var afar gott að ljúka mótinu á þennan hátt,“ sagði Rakel Dögg Bragadóttir m.a. í hljóðskilaboðum til handbolta.is í dag að loknum 15 marka sigri íslenska landsliðsins á liði Angóla á heimsmeistaramóti 18 ára landsliða kvenna í handknattleik í Chuzhou í Kína, 36:21. Með leiknum lauk íslenska liðið þátttöku á mótinu í 25. sæti og með tveimur sigurleikjum í röð.
Íslensku stelpurnar luku keppni á HM með 15 marka sigri
„Við byrjuðum afar vel í leiknum. Varnarleikurinn var mjög agaður enda var leikplaninu haldið frá fyrstu mínútu sem gerði að verkum að okkur tókst að stöðva helstu skyttur angólska liðsins. Í sóknarleiknum vorum við mjög áræðnar og klókar og tókst að skapa okkur færi í hverri sókn. Eftir mjög góðan fyrri hálfleik skein einbeiting úr hverju andliti í hálfleik og leikmenn ákveðnir í að halda áfram á sömu braut sem varð raunin,“ sagði Rakel Dögg sem undirstrikar framfarir og mikla reynslu sem leikmenn koma heim með í farteskinu frá heimsmeistaramótinu.
Stór hópur af efnilegum stelpum
„Ég horfi einna helst á framfarir, þroskaferli og þann lærdóm sem hópurinn hefur fengið af þátttökunni. Við erum með stóran hóp af mjög efnilegum stelpum sem svo sannarlega kemur heim reynslunni ríkari. Í dag voru þær algjörlega til fyrirmyndar á öllum sviðum handboltans. Baráttan og gleðin var mikil og orkan skein af öllum. Stelpurnar eru vaxandi og geta haldið áfram að byggja ofan á frammistöðuna,“ sagði Rakel Dögg Bragadóttir í talskilaboðum til handbolta.is frá Chuzhou í Kína.
HM18 kvenna – leikjadagskrá, úrslit, mótslyktir