„Ég er vonsvikinn yfir að við gerðum ekki betur að þessu sinni og ná um leið að vinna einn leik á heimavelli í keppninni,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals við handbolta.is í kvöld eftir jafntefli, 34:34, við HC Vardar frá Norður Makedóníu á Hlíðarenda í fimmtu og næst síðustu umferð Evrópudeildarinnar í handknattleik karla.
Skoruðum í hvert sinn
„Við vorum bara með alltof marga tæknifeila í leiknum. Þegar við skutum á markið þá skoruðu við nærri því í hvert sinn,“ sagði Óskar Bjarni sem var óánægður með að Valsliðinu tókst ekki að nýta sér það að ná fimm marka forskoti eftir miðjan fyrri hálfleik, 14:9, og aftur þriggja marka forskoti, 29:26, þegar nær dró leikslokum.
Virtumst vera að tapa
„Eins og í fyrri hálfleik þá misstum við taktinn og forskotið. Á síðustu mínútum var svo komið að við virtumst jafnvel vera búnir að tapa leiknum, vorum marki undir og manni færri þegar rúmar tvær mínútur eru til leiksloka. Úr því sem komið var þykir mér gott að okkur tókst að snúa við taflinu og komast marki yfir þegar innan við hálf mínúta var eftir. Svo var eitthvað leiðindadæmi í lokin sem ég nenni ekki að pæla í en það var svekkjandi að fá dæmt á sig þetta vítakast,“ sagði Óskar Bjarni um atvikið á síðustu sekúndu þegar vítakast var dæmt á Val fyrir að tefja leikinn þegar ein eða tvær sekúndur voru eftir af leiktímanum.
Fengum tækifærin
„Við áttum bara að vera búnir að gera út um leikinn. Til þess fengum við tækifæri bæði í fyrri hálfleik og í þeim síðari. Ég verð að skoða þann kafla betur sjá nákvæmlega hvað gerðist,“ sagði Óskar Bjarni sem vildi ekki skrifa það á reikning reynsluleysis að lið hans vann ekki leikinn.
Ekki reynsluleysi
„Ég held ekki að um reynsluleysi hafi verið að ræða, bara klaufaskapur því við eigum ekki að gera svona mörg einföld mistök í sóknarleiknum. Svo er örugglega eitthvað sem skrifa má á mig varðandi hvenær ég hvíldi leikmenn,“ sagði Óskar Bjarni ennfremur.
Hafa góða breidd
Þrátt fyrir að Vardar sé ekki eins sterkt og það var í lok síðasta áratugar þegar Vardar vann Meistaradeild Evrópu í tvígang á þremur árum þá er breiddin í leikmannahópnum jöfn og góð. Liðið veiktist ekki þótt gerðar væru tíðar breytingar meðal leikmanna. „Þeir hafa marga leikmenn og skipta mikið en halda samt alltaf áfram af sömu getu.“
Gerum það besta úr stöðunni
Úrslitaleikurinn sem Valsmenn vonuðust eftir að geta stillt upp í Porto eftir viku er að engu orðinn. Óskar Bjarni sagði það vera leitt. „Það hefði verið gaman fyrir að fara út til Porto í úrslitaleik en af því verður ekki og við verðum bara að njóta þessa að fara til Porto í geggjaða höll og gera okkar besta,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals.
Skammt er stórra högga á milli hjá Valsliðinu því áður en liðið fer til Portúgal sækir liðið Hauka heim í Olísdeild karla á föstudaginn.
Evrópudeild karla “24 – riðlakeppni 32-liða – 5. umferð, úrslit, staðan