- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Vorum búnir, líkamlega og andlega“

Aron Kristjánsson lengst t.v. stýrir sínum mönnum í landsliðið Barein á ÓL. Mynd/EPA
- Auglýsing -

„Við vorum búnir, líkamlega og andlega. Sá árangur sem við höfum náð að vera á meðal átta efstu er umfram væntingar og kannski getu liðsins,“ sagði Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari Barein í samtali við handbolta.is í morgun eftir að lið hans lauk keppni á Ólympíuleikunum með 14 marka tapi, 42:28, fyrir Frökkum í átta liða úrslitum. Fjallað var um leikinn á handbolta.is í morgun.

Frakkar nálgast fyrri styrk

Aron segir Frakka vera afar sterka um þessar mundir og séu til alls líklegir á leikunum. „Frakkar eru betri núna en þeir hafa verið langt skeið, til dæmis virðast þeir mun öflugri en á HM í Egyptalandi í upphafi þessa árs. Mér finnst þeir vera að nálgast þann stað sem þeir voru á fyrir nokkrum árum. Handboltinn sem þeir leika er frábær,“ sagði Aron.

Óvíst framhald hjá Aroni

Aron segir óvíst hvort hann komi eitthvað að málum í Barein nú þegar verkefni hans sé lokið að þessu sinni. „Bareinar vilja framlengja samninginn við mig til lengri tíma og eiga sér einhverja framtíðarsýn. Við sjáum til hvað framtíðin ber í skauti sér. Ég er í fullri vinnu heima á Íslandi þar sem fjölskylda mín er líka,“ segir Aron en undirstrikar að hvort sem hann heldur áfram eða ekki þá verði stjórnendur handknattleiks í Barein og leikmenn að stokka upp spilin vilji menn stíga skref framfara til lengri tíma litið.

Verða að taka til hendinni

„Nú þurfa menn að hugsa aðeins lengra og setja það niður fyrir sig hvað þarf að gera til þess að taka skref á fram á við. Það er ljóst að ef menn ætla sér að nálgast efri hlutann í handboltaheiminum verður að spýta í lófana og vinna að ýmsum þáttum eins og til dæmis líkamlegri þjálfun. Ég veit hinsvegar ekki hversu mikið sambandið í Barein er tilbúið að leggja til þeirrar vinnu.

Hitt snýr að leikmönnunum sjálfum. Þeir þurfa að komast út fyrir Persaflóann þar sem þeir kunna best við sig. Þeir verða að komast í annað æfingaumhverfi þar sem þeir æfa meira og betur, kynnast betur atvinnumannaumhverfinu sem er í Evrópu þar sem dómgæsla og umgjörðin líkist meira því sem menn þekkja á stórmótum landsliða,“ segir Aron sem tók að sér að undirbúa og stýra landsliði Barein í annað sinn í vor en hann var einnig með landslið Barein frá 2018 fram á síðasta sumar.

Lærdómsríkur tími að baki

„Tímabilið hefur verið mjög langt og lærdómsríkt, ekki bara fyrir mig heldur alla heima, jafnt þjálfara sem leikmenn. Ég tók þátt í síðasta leiknum heima á Íslandi 18. júní og fór þá beint út til Barein. Í ljósi þessa er mjög ánægjulegt að fara vel út úr þessu verkefni með Bareina. Við lékum og náðum betri árangri en væntingar stóðu til.


Næst á dagskrá er að fara heim og vera með fjölskyldunni í nokkra daga áður en vinna hefst á ný með Haukana. Vonandi verður næsta tímabil áfallaminna með tilliti til veirunnar og allra hléa sem varð að gera á síðasta keppnistímabili,“ segir Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari Barein og deildarmeistara Hauka í handknattleik karla. Hann á flug heim næstu nótt frá Tókýó og væntir þess að verða komin heim í Hafnarfjörð þegar kemur fram undir annað kvöld eftir langa útiveru.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -