- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Vorum í brekku frá fyrstu mínútum

Sólveig Lára Kjærnested þjálfari ÍR. Mynd/ÍR
- Auglýsing -

„Leikurinn var brekka af okkar hálfu frá fyrstu mínútu,“ sagði Sólveig Lára Kjærnested þjálfari og leikmaður ÍR við handbolta.is í gærkvöld eftir fyrsta tap ÍR-liðsins í rimmunni við Selfoss í úrslitum umspils Olísdeildar kvenna í handknattleik í Sethöllinni á Selfossi, 33:21. ÍR hefur áfram yfirhöndina ef sigurleikirnir eru taldir, 2:1. Næsta viðureign verður í Skógarseli ÍR-inga á sunnudaginn.

Eftir að hafa leikið góðan varnarleik og agaðan sóknarleik í tveimur fyrstu leikjum einvígisins snerust vopnin í höndum leikmanna ÍR í gærkvöld.

Svöruðum ekki í sömu mynt

„Selfossliðið var með bakið upp við vegginn fyrir leikinn. Þar af leiðandi var ljóst að liðið myndi mæta af miklum þunga til leiks. Það var okkur ljóst og plan okkar var að svara í sömu mynt en því miður tókst það ekki. Varnarleikurinn var slakur og sóknarleikurinn óagaður. Þar af leiðandi tókst Selfossliðinu að keyra mikið á okkur. Þar á ofan féll allt með Selfyssingum í byrjun, stemningin og orkan var þeirra megin. Þar af leiðandi varð leikurinn okkur mjög erfiður,“ sagði Sólveig Lára.

Engan bilbug að finna

Næsti leikurinn í einvíginu verður á sunnudaginn á heimavelli ÍR í Skógarseli og hefst klukkan 16. Sólveig Lára segir engan bilbug vera að finna á sér og sínum leikmönnum þrátt fyrir erfiðan leik og 12 marka tap í Sethöllinni. Nákvæmni þurfi til að stilla strengina í liðinu sem hafi e.t.v. ekki yfir mikilli reynslu að ráða að leika nokkra úrslitaleiki á nokkrum dögum.

Fínstilla spennustigið

„Ein stærsta áskorunin verður að fínstilla spennustigið og að leikmenn hafi næga orku en fari á sama tíma hvorki yfir né undir ákveðna línu. Það verður okkur helsta verkefni. Síðan förum við vel yfir leikinn, leitum leiða til þess að læra af því sem illa gekk,“ sagði Sólveig Lára ennfremur.

Hörkugóð reynsla

Allir leikmenn ÍR komust heilir frá leiknum í gærkvöld að sögn þjálfarans sem gaf öllum leikmönnum tækifæri til þess að spreyta sig, náði að dreifa álaginu.

„Fyrir næsta leik náum við einum frídegi áður en undirbúningur hefst fyrir fjórða leikinn á sunnudaginn.

Leikirnir eru hörku góð reynsla fyrir mínar stelpur. Þær eiga að njóta þess að taka þátt í þeim og sýna hvað þær geta í handbolta því það er mjög mikið. Það er líka lærdómur að leika í stemningu og hávaða eins og var til dæmis í kvöld.

Takk fyrir stuðninginn

Ég er mjög ánægð með okkar frábæra stuðningsfólk sem fjölmennti á leikinn og studdi okkur með ráðum og dáð frá fyrstu til síðustu mínútu. Ég og við í liðinu er mjög þakklát fyrir stuðninginn sem er okkur mjög dýrmætur,“ sagði Sólveig Lára Kjærnested þjálfari ÍR.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -