Ljubomir Vranjes íþróttastjóri og annar starfandi þjálfara þýska handknattleiksliðsins Flensburg, hefur beðist afsökunar á framkomu leikmanna Flensburgliðsins þegar þeir komu í veg fyrir að tvö leikhlé liðsins væri hljóðrituð í viðureign við Melsungegn í átta liða úrslitum þýsku bikarkeppninnar á dögunum. Atvikin vöktu mikla eftirtekt og undrun enda regla sem lið samþykkja að leikhlé í kappleikjum í beinu útsendingum séu tekin upp í hljóð og mynd.
„Við höfum beðist afsökunar á framkomu okkar, meðal annars við Melsungen. Sannarlega áttu menn að láta hljóðnemann vera. Framkoma af þessu tagi var okkur ekki til sóma,“ segir Vranjes sem er þrautreyndir þjálfari og leikmaður.
„Hér eftir verða leikhlé í okkar leikjum hljóðrituð og mynduð án afskipta leikmanna okkar og þjálfara,“ segir Vranjes ennfremur.
Eftir fyrrgreindan leik sagði Jim Gottfridsson leikmaður Flensburg að ástæða þess að leikmenn hafi gripið í taumana og komið í veg fyrir upptöku hafi verið sú að leikhlé í fyrri viðureignum Melsungen og Flensburg hafi verið hleruð af forráðamönnum Melsungen. Ljóst virðist að staðhæfing Gottfridsson er úr lausu lofti gripin og forráðamenn Flensburg séð ástæðu til að biðja stjórnendur Melsungen afsökunar eins og sjónvarpsstöðina sem sendi út leikinn.