Rhein-Neckar Löwen heldur sínu striki sem topplið þýsku 1. deildarinnar í handknattleik. Löwen, með Ými Örn Gíslason innanborðs, vann í kvöld Bjarka Má Elísson og félaga í Lemgo, 26:18, á heimavelli, eftir að hafa verið fimm mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 14:9.
Bjarki Már hafði óvenju hægt um sig í leiknum. Hann skoraði einungis fjögur mörk, þar af eitt út vítakasti, sem er nokkuð undir hans meðaltali.
Ýmir Örn skoraði ekki að þessu sinni fyrir Löwen en var aðsópsmikill í vörninni. Alexander Petersson er enn fjarri góðu gamni vegna meiðsl í öxl.
Löwen er með 14 stig eftir átta leiki í efsta sæti. Kiel og Flensburg eru næst á eftir með 10 stig en hafa aðeins leikið sex leiki hvort.
Stuttgart getur skotist upp í annað sæti í kvöld með sigri á Hannover Burgdorf en leikur liðanna hefst klukkan 19.30.