- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Zecevic fór á kostum í Eyjum

Darija Zecevic, markvörður Stjörnunnar, var frábær í marki Stjörnunnar í Eyjum í dag. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Eftir talsverðan barning í lokin þá tókst Stjörnunni að fagna sigri á ÍBV í viðureign liðanna í Olísdeild kvenna í handknattleik í Vestmannaeyjum í dag, 26:24. Eva Björk Davíðsdóttir innsiglaði sigurinn á síðustu sekúndunum og hjó þá á nærri tíu markalausar mínútur liðsins.


Eyjaliðið var sex mörkum undir, 25:19, þegar níu mínútur voru til leiksloka. Þá var eins og það vaknaði til lífsins og sótti hart að leikmönnum Stjörnunnar sem lánaðist að standast síðasta áhlaupið og tryggja sér tvö dýrmæt stig eftir erfitt gengi í deildinni til þessa.

Eva Björk Davíðsdóttir skoraði sigurmark Stjörnunnar í dag og var markahæsti leikmaður liðsins. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson


Stjarnan lyfti sér upp í fimmta sæti deildarinnar með sigrinum. Liðið hefur fjögur stig að loknum fimm leikjum. ÍBV er næst neðst með tvö stig en á leik til góða.


Stjarnan var talsvert sterkari í 50 mínútur í leiknum í Vestmannaeyjum og var með yfirhöndina frá upphafi. Sóknarleikur ÍBV strandaði oft á markverði Stjörnunnar, Darija Zecevic, sem virtist kunna vel við sig gegn sínum gömlu samherjum. Hún varði allt hvað af tók og var með yfir 50% markvörslu í fyrri hálfleik. Forskot Stjörnunnar var tvö til fjögur mörk nánast allan fyrri hálfleikinn. Þegar hann var að baki voru gestirnir þremur mörkum yfir, 15:12. Þess utan var Marija Jovanovic, leikmaður ÍBV, búin að fá þrjár brottvísanir og kom ekki meira við sögu.


Lengst af síðari hálfleik benti fátt til annars en að Stjarnan færi með bæði stigin heim. ÍBV-liðið var alltaf á eftir. Zecevic hélt uppteknum hætti.
Sem fyrr segir hljóp aldeilis spenna í leikinn á lokakaflanum. Stjörnuliðinu virtist fyrirmunað að skora á sama tíma og eitt og eitt tíndist inn hjá ÍBV sem hefði e.t.v. getað þó gert betur því nokkrar sóknir fór forgörðum t.d. í stöðunni 25:22.


Hálfri mínútu fyrir leikslok tók Stjarnan leikhlé og lagði á ráðin marki yfir. Upp úr leikhléinu skoraði Eva Björk markið sem innsiglaði sanngjarnan sigur.


Mörk ÍBV: Sunna Jónsdóttir 6, Elísa Elíasdóttir 6, Marija Jovanovic 3/1, Harpa Valey Gylfadóttir 3, Karolina Olszowa 3, Þóra Björg Stefánsdóttir 2/2, Lina Cardell 1.
Varin skot: Marta Wawrzykowska 7, 31,8% – Erla Rós Sigmarsdóttir 7, 38,9%.
Mörk Stjörnunnar: Eva Björk Davíðsdóttir 6/4, Helena Rut Örvarsdóttir 5, Stefanía Theodórsdóttir 4, Britney Cots 3, Lena Margrét Valdimarsdóttir 3/1, Elísabet Gunnarsdóttir 2, Ásthildur Bertha Bjarkadóttir 2, Anna Karen Hansdóttir 1.
Varin skot: Darija Zecevic 18, 42,9%.

Stöðuna og næstu leiki í Olísdeild kvenna má sjá hér.

Alla tölfræði leiksins er að finna hjá HBStatz.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -