Díana Dögg Magnúsdóttir og samherjar í BSV Sachsen Zwickau verða að berjast fyrir sæti sínu í efstu deild þýska handknattleiksins í tveimur umspilsleikjum eftir að hafa hafnað í næsta neðsta sæti 1. deildar þegar reikningarnar voru gerðir upp að lokinni lokaumferð deildarinnar í kvöld.
Í góðum málum
Hinn Íslendingurinn í deildinni, Sandra Erlingsdóttir, er hinsvegar í góðum málum með TuS Metzingen þrátt fyrir tap í fyrir meisturum Bietigheim, 36:32, í síðustu umferðinni. TuS Metzingen hafnaði í sjötta sæti og getur vel við unað eftir nokkrar breytingar á leikmannahópnum fyrir keppnistímabilið.
BSV Sachsen Zwickau vann VfL Waiblingen, 27:25, á heimavelli í lokaumferðinni. Sigurinn nægði ekki til þess að komast upp úr næst neðsta sæti deildarinnar. Díana Dögg skoraði sex mörk og átti sjö stoðsendingar í leiknum. Einnig var henni vikið af leikvelli í tvígang í tvær mínútur í hvort skiptið.
Fyrri leikur á miðvikudag
BSV Sachsen Zwickau mætir Göppingen í umspilinu annað árið í röð. Göppingen hafnaði í öðru sæti 2. deildar. Fyrri viðureignin fer fram í Zwickau á miðvikudaginn en síðari leikurinn verður í Göppingen eftir viku. Samanlögð úrslit leikjanna tveggja skera úr um hvort þeirra fær sæti í efstu deild á næstu leiktíð. BSV Sachsen Zwickau vann umspilsleiki liðanna í fyrra samanlagt með þriggja marka mun, 51:48, eins og sjá má hér.

Lauk fyrsta tímabili
Sandra Erlingsdóttir var að ljúka sinni fyrstu leiktíð í þýsku 1. deildinni með leiknum við Bietigheim í kvöld. Hún skoraði fjögur mörk í fimm skotum og átti tvær stoðsendingar. Eins og áður var getið vann Bietigheim leikinn með fjögurra marka mun, 36:32, eftir að hafa verið átta mörkum yfir í hálfleik, 21:13.
Bietigheim varð þýskur meistari annað árið í röð. Liðið vann 25 leiki og gerði aðeins eitt jafntefli.
Lokastaðan: