Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna tapaði með 13 marka mun, 37:24, fyrir Svíum á Ásvöllum í kvöld í þriðju umferð 7. riðils undankeppni Evrópumótsins. Tapið var alltof stórt en ástæða þess er að það fjaraði hratt undan leik íslenska liðsins síðasta stundarfjórðunginn.
Staðan að loknum fyrri hálfleik var 17:12, eins og viðureign þjóðanna á sama stað fyrir tveimur árum, einnig í undankeppni EM. Þá viðureign unnu Svíar með sex mark mun. Aðeins fimm leikmenn íslenska landsliðsins þá voru með í leiknum í kvöld. Svo miklar hafa breytingar orðið á íslenska liðinu á skömmum tíma.
Liðin mætast öðru sinni í Karlskrona á laugardaginn klukkan 13. Ísland leikur síðan við Lúxemborg 3. apríl og Færeyjar 7. apríl þegar undankeppninni lýkur.
Staðan í riðlunum.
Fyrstu 15 til 20 mínútur fyrri hálfleik voru góðar af hálfu íslenska liðsins. Sóknarleikurinn var agaður og þótt hann skilaði ekki mörgum mörkum þá fengu Svíar ekki mörg svokölluð auðveld mörk eftir hraðaupphlaup. Markvarslan var ekki viðunandi en því miður þá náði Elín Jóna Þorsteinsdóttir sér ekki á strik.
(Hafliði Breiðfjörð var á Ásvöllum í kvöld og myndaði fyrir handbolta.is. Hér fyrir neðan eru nokkrar mynda Hafliða).
Síðari hálfleikur fór vel af stað og eftir nærri 5 mínútur var forskot Svía komið niður í tvö mörk, 17:19. En sá munur var ekki lengi. Svíar voru fljótir að ná forskotinu upp í sex til sjö mörk og virtist íslenska landsliðið ætla að halda sjó með þeim mun. Því miður þá gerðist það ekki. Eins og fyrr segir þá tapaðst boltinn of oft og á einfaldan hátt. Hlaupið var inn í sendingaleiðir íslenska liðsins eða að komist var inn í línusendingar. Munurinn jókst hratt og tapið varð alltof stórt.
Mörk Íslands: Elín Klara Þorkelsdóttir 5, Þórey Rósa Stefánsdóttir 4, Thea Imani Sturludóttir 4, Elín Rósa Magnúsdóttir 3, Perla Ruth Albertsdóttir 2, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 2/2, Hildigunnur Einarsdóttir 1, Tinna Sigurrós Traustadóttir 1, Elísa Elíasdóttir 1, Lilja Ágústsdóttir 1.
Varin skot: Sara Sif Helgadóttir 10, 31,3% – Elín Jóna Þorsteinsdóttir 0.
Mörk Svíþjóðar: Jamina Roberts 7, Jenny Carlson 4, Elin Hansson 3, Nathalie Hagman 3, Emma Lingquist 3, Kristín Þorleifsdóttir 3, Linn Blohm 2, Tyra Axnér 2, Mathilda Lundström 2, Nina Koppand 2, Clara Lerby 2, Nina Dano 2, Sofia Hvenfelt 1.
Varin skot: Evelina Eriksson 5, 33,3 % – Irma Schjött 4/1, 40% – Johanna Bundsen 2, 22,2%.
Öll tölfræði leiksins hjá HBstatz.
Handbolti.is var á Ásvöllum og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.