- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

19 ár síðan Strand skoraði 19 mörk gegn Íslandi á EM

Kjetil Strand til hægri í kapphlaupi við Ólaf Stefánsson í leiknum í St Gallen fyrir 19 árum þegar Strand setti markametið. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -


Í dag eru 19 ár síðan norski handknattleiksmaðurinn Kjetil Strand skorað 19 mörk fyrir norska landsliðið í sigurleik á íslenska landsliðinu, 36:33, á EM karla í handknattleik í St Gallen í Sviss. Strand setti markamet á stórmóti í leiknum og hefur enginn handknattleiksmaður síðan farið nærri því að jafna metið, hvað þá að slá það.

Sex af sjö fyrstu mörkunum

Strand skoraði átta af mörkunum 19 úr vítaköstum og var algjörlega óviðráðanlegur eins og nærri má geta. Hann lék í hægri skyttustöðunni þótt hann sé alls ekki örvhentur. M.a. skoraði Strand sex af fyrstu sjö mörkum norska liðsins í leiknum.

Hafði verið meiddur

Frammistaða Strand kom mjög á óvart vegna þess að hann var ekki talinn helsta vopn norska liðsins á þessum tíma. Strand hafði verið meiddur í aðdraganda EM og lítið sem ekkert tekið þátt í undirbúningi norska landsliðsins. Engu að síður veðjaði Gunnar Pettersen þáverandi landsliðsþjálfari á að hafa Strand með í hópnum.

Opna úr Morgunblaðinu 3. febrúar 2006, daginn eftir 19 marka leik Strand gegn íslenska landsliðinu. Morgunblaðið fjallaði um leikinn í nærri sjö síðum í átta síðna íþróttablaði daginn eftir.

Strand var á tímabundnum samningi hjá danska liðinu Bjerringbro/Silkeborg. Vegna meiðsla hafði hann lítið leikið með liðinu. Strand gekk til liðs við AaB, sem var forveri Aalborg Håndbold, sumarið 2006. Rúmu ári síðar samdi Strand við Füchse Berlin og var í þýsku höfuðborginni í þrjú ár áður en hann lauk ferlinum hjá uppeldisfélaginu, Stavanger Håndbold.

Segja má að Strand hafi staðið í skugga þessa afreks gegn íslenska landsliðinu því ferill hans náði aldrei verulegum hæðum eftir leikinn í St Gallen í Sviss 2. febrúar 2006.

Skoraði eitt mark gegn Dönum

Tveimur dögum fyrir leikinn við Ísland skoraði Strand eitt mark gegn Dönum. Alls skoraði Strand 36 mörk á EM 2006.

Tapið varð til þess að íslenska liðið missti af tækifærinu um að leika um 5. til 6. sætið og hafnaði þess í stað í 8. sæti. Noregur varði í 11. sæti. Bæði lið héldu heim morguninn eftir leikinn.

Ólafur markahæstur

Ólafur Stefánsson var markahæstur í íslenska liðinu í leiknum með níu mörk. Hann bætti markamet Kristjáns Arasonar, 1.089 mörk, fyrir landsliðið í leiknum. Það féll í skuggan af tapinu og stórleik Strand.

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði sex mörk, Róbert Gunnarsson og Snorri Steinn Guðjónsson fimm hvor, Ásgeir Örn Hallgrímsson skoraði fjögur, Sigfús Sigurðsson tvö, Arnór Atlason og Heimir Örn Árnason eitt mark hvor.

Landsliðsþjálfari á þessum tíma var Viggó Sigurðsson. Markverðir íslenska liðsins í leiknum voru Birkir Ívar Guðmundsson og Hreiðar Levý Guðmundsson.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -