- Sara Dögg Hjaltadóttir skoraði fjögur mörk fyrir Volda þegar liðið tapaði í gær fyrir Bærum, 24:17, í norsku B-deildinni, eða 1. deild. Leikið var í Bærum. Heimaliðið var marki yfir í hálfleik, 11:10. Leikmönnum Volda féll allur ketill í eld í síðari hálfleik. Halldór Stefán Haraldsson er þjálfari Volda og Hilmar Guðlaugsson er aðstoðarþjálfari. Liðið er í fimmta sæti með fimm stig eftir fjórar umferðir. Keppnin á toppnum er hörð og Bærum er aðeins tveimur stigum á undan í efsta sæti.
- Viktor Petersen Norberg skoraði fimm mörk og Óskar Ólafsson fjögur þegar Drammen vann Runar, 24:23, í hörkuleik í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gærkvöld. Drammen er í þriðja sæti með 13 stig eftir níu leiki. Arendal er í öðru sæti með 14 stig, einnig að loknum níu leikjum. Elverum er efst, hefur 14 stig en á leik inni á Arendal og Drammen.
- Aðalsteinn Eyjólfsson og lærisveinar unnu Bern, 35:31, í Bern á laugardaginn í svissnesku A-deildinni í handknattleik. Kadetten endurheimti þar með efsta sæti deildarinnar. Liðið hefur 14 stig eftir níu leiki. HC Kriens, sem var á toppnum tapaði í gær fyrir Suhr Aarau, 25:21, á útivelli og mistókst þar með að endurheimta toppsætið. Suhr Aarau og HC Kriens eru í öðru og þriðja sæti, einu stigi á eftir Kadetten.
- Talið er víst að Danmerkurmeistarar Aalborg Håndbold verði að sjá á bak línumanni sínum Magnus Saugstrup eftir yfirstandandi leiktíð. Samningur hans við félagið rennur út um mitt næsta ár. Saugstrup hefur leikið afar vel það sem af er leiktíð og vakti auk þess athygli með danska landsliðinu á EM2020. TV2 í Danmörku leiðir líkum að Saugstrup leysi króatíska línumanninn Zejlko Musa af hjá SC Magdeburg. Á dögunum var greint frá að Musa stæði ekki til boða nýr samningur hjá Magdeburg en núverandi samningur rennur út í lok júní á næsta ári. Sjálfur er Saugstrup þögull sem gröfin um hvert hugur hans stefnir.
- Fyrir nokkrum vikum voru sögusagnir um að Portúgalinn Andre Gomes væri á leið til Kiel og ætti að hlaupa í skarðið fyrir Nikola Byleki sem er með slitið krossband. Ekkert varð af vistaskiptum Gomes. Nú er því haldð fram að Gomes verði lærisveinn Guðmundar Þórðar Guðmundssonar hjá Melsungen frá og með næstu leiktíð. Gomes gerir það gott með Porto í heimalandi sínu og hefur einnig vakið athygli með landsliði Portúgal.
- Auglýsing -