- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Erum spenntar fyrir að mæta Tyrkjum

Sunna Jónsdóttir í landsleik við Serba í haust. Mynd / Mummi Lú
- Auglýsing -

„Við erum spenntar fyrir að mæta Tyrkjum sem eru með ágætt lið sem hefur verið í talsverðri framför á síðustu árum,“ sagði Sunna Jónsdóttir, hin þrautreynda landsliðskona í handknattleik, spurð út í hvers megi vænta á miðvikudaginn þegar íslenska landsliðið mætir tyrkneska landsliðinu í undankeppni Evrópumótsins. Leikurinn fer fram í borginni Kastamonu í norðurhluta Tyrklands. Flautað verður til leiks klukkan 16.

Tyrkneskt lið í Meistaradeildinni

„Tyrkir eiga sífellt fleiri góða leikmenn og margir þeirra eru í meistaraliðinu Kastamonu sem leikur í Meistaradeild Evrópu. Það segir eitthvað um getuna um þessar mundir og framfarirnar sem hafa átt sér stað. Það eru flottir leikmenn í tyrkneska landsliðinu sem eru vel spilandi og fljótir. Skytturnar eru góðar. Möguleikarnir eru hinsvegar góðir fyrir okkur. Við höfum á að skipa góðri vörn og flottum markvörðum og teljum hraðan vera góðan í sóknarleiknum,“ sagði Sunna ennfremur í samtali við handbolta.is.

Úrslit til þessa í 6. riðli undankeppni EM:
Serbía - Tyrkland 36:27.
Svíþjóð - Ísland 30:17.
Tyrkland - Svíþjóð 23:31.
Ísland - Serbía 23:21.
Serbar og Svíar mætast 3. og 5. mars.
Síðustu leikir riðlakeppninnar fara fram í vikunni eftir páska. Tvö efstu liðin í riðlinum tryggja sér keppnisrétt á EM sem fram fer í desember í þremur löndum; Slóveníu, Svartfjallalandi og Norður Makedóníu.

Höldum áfram að bæta okkar leik

Sunna segir að leikurinn leggist vel í leikmenn. Vel hafi gengið hjá landsliðinu í síðustu verkefnum. Áfram verði unnið við að styrkja raðirnar. „Við höldum áfram að vinna í að bæta okkar leik, taka skref fram á veginn. Eftir leikina við Svía og Serba í undankeppninni í október fengum við mjög gott æfingamót í Tékklandi í nóvember. Það skilaði okkur árangri. Við erum ennþá að bæta okkur sem lið.“

Vonandi verður góð stemning

Mikill áhugi er fyrir handknattleik í Kastamonu. Þess vegna má búast við góðri stemningu og skemmtilegri umgjörð um viðureignina á miðvikudaginn. „Vonandi verður fullt af fólki og hiti í áhorfendum. Það er gaman að leika við þær aðstæður,“ segir Sunna sem er með reynslumeiri leikmönnum landsliðsins. Viðureignin á miðvikudaginn verður hennar 64. A-landsleikur.


Markmiðið er skýrt í huga Sunnu. Það eru fjögur stig í tveimur næstu viðureignum en í kjölfar leiksins í Kastamonu mætast landsliðin á nýjan leik á Ásvöllum á sunnudaginn. Ef íslenska landsliðið ætlar sér að gera atlögu að öðru sæti riðilsins og EM-sæti verða viðureignirnar við Tyrki að vinnast.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -