- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

30. sigur Vals í röð í Olísdeildinni – taplaust ár 2024

Íslandsmeistarr Vals í handknattleik kvenna 2024. Ljósmynd/Mummi Lú/HSÍ
- Auglýsing -


Íslandsmeistarar Vals í handknattleik kvenna ljúka leikárinu í Olísdeild kvenna án þess að tapa einu stigi eftir að hafa unnið ÍBV, 28:21, í 9. umferð deildarinnar í kvöld í N1-höllinni á Hlíðarenda í síðasta leik liðanna í deildinni á árinu. Þetta var 30. sigur Vals í röð í Olísdeild kvenna og úrslitakeppni eða allt frá því liðið beið lægri hlut fyrir Haukum í sjöttu umferð á síðustu leiktíð, 26:25, 21. október 2023.

Sigrar Vals eru ennþá fleiri þegar bikarkeppnin og Meistarakeppnin er tekin með í reikninginn.

Ægishjálmur Vals

Þrátt fyrir að oft hafi eitt lið skarað framúr í efstu deild kvenna hér á landi á síðustu árum þarf að leita mörg ár aftur í tímann til að leita að liði sem hefur borið slíkan ægishjálm yfir önnur og Valur gerir nú. Sennilega þarf að fara aftur á níunda áratug síðustu aldar á blómaskeiði Framliðs sem þá var upp á sitt besta. Hugsanlega var ÍBV þó með viðlíka yfirburði um skeið í upphafi þessarar aldar.

Vitanlega er Valur efstur í deildinni eftir það sem á undan er gengið með 18 stig. ÍBV er í fimmta sæti með sex stig. Eftir skell fyrir Gróttu á heimavelli á laugardaginn þá var annað sjá til ÍBV-liðsins í dag þótt það ætti við ofurefli að etja.

Wawrzykowska var ekki með

Skarð var svo sannarlega fyrir skildi hjá ÍBV að Marta Wawrzykowska markvörður var ekki með að þessu sinni enda einn allra besti markvörður deildarinnar.

Að loknum fyrri hálfleik var átta marka munur, Val í vil, 16:8. Rétt fyrir miðjan síðari hálfleik hafði ÍBV saxað á forskot Vals og komið því niður í fjögur mörk, 20:16, og m.a. skoraði þá þrjú mörk í röð. Þá tók við liðlega 10 mínútna kafli með afar góðum varnarleik Vals sem skilaði liðinu hverju hraðaupphlaupinu í röð og 10 marka forskoti, 28:18, þegar fimm mínútur voru eftir á leikklukkunni.

Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.

Mörk Vals: Þórey Anna Ásgeirsdóttir 8/2, Sigríður Hauksdóttir 5, Thea Imani Sturludóttir 3, Arna Karitas Eiríksdóttir 3, Lovísa Thompson 3, Elísa Elíasdóttir 2, Hildigunnur Einarsdóttir 2, Elín Rósa Magnúsdóttir 2.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 12, 40% – Elísabet Millý Elíasardóttir 1, 33,3%.

Mörk ÍBV: Birna Berg Haraldsdóttir 7/4, Sunna Jónsdóttir 5, Britney Emilie Florianne Cots 3, Ásdís Halla Hjarðar 1, Herdís Eiríksdóttir 1, Birna Dögg Egilsdóttir 1, Dagbjört Ýr Ólafsdóttir 1, Alexandra Ósk Viktorsdóttir 1.
Varin skot: Bernódía Sif Sigurðardóttir 3, 10,7% – Ólöf Maren Bjarnadóttir 1, 25%.

Tölfræði HBStatz.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -