Handknattleiksmaðurinn Gestur Ólafur Ingvarsson leikur ekki með Aftureldingu á komandi leiktíð. Hann er fluttur til Árósa í Danmörku og hefur sett stefnuna á nám í rafmagnsverkfræði. Gestur Ólafur hefur verið einstaklega óheppinn á handknattleiksvellinum undanfarin tvö ár og m.a. í tvígang með árs millibili slitið krossband í hné. Í síðara skipti í lok september á síðasta ári í leik FH og Aftureldingar í Kaplakrika.
Gestur Ólafur náði að leika fjóra leiki Olísdeildini á síðasta keppnistimabili en var alveg frá keppni leiktíðina 2018/19 vegna slitins krossbands. Keppnistímabilin tvö þar á undan hafði hann vakið verðskuldaða athygli fyrir lipurlega tilþrif og góða skotnýtingu í stöðu hægri hornamanns í liði Aftureldingar.
Gestur Ólafur segist ekki vera búinn að gefa handboltann upp á bátinn þrátt fyrir mótbyr síðustu ára. Hinsvegar eigi hann enn talsvert í land að ná sér fullkomlega enda reynir það verulega á, bæði andlega og líkamlega að verða fyrir langtíma erfiðum meiðslum.
„Ég er að skríða saman eins en hef ekki jafnað mig fullkomlega. En fyrst og fremst er ég hér úti Árósum í námi en sprikla með Skovbakken sem leikur í fyrstu deild,” sagði Gestur Ólafur í stuttu samtali við handbolta.is.