„Allir vilja taka þátt í bikarhelginni. Við erum þar engin undantekning,“ sagði Patrekur Jóhannesson þjálfari Stjörnunnar sigurreifur eftir sigur á Íslands- og bikarmeisturum Vals í átta liða úrslitum Poweradebikarsins í handknattleik karla í TM-höllinni í Garðabæ í gærkvöld, 30:29.
Unnið FH og Val
„Við höfum unnið fyrir þessu með því að vinna FH í sextán liða úrslitum og í kvöld sterkasta lið landsins undanfarin þrjú ár, Valsmenn, í átta liða úrslitum. Það gefur okkur kraft en við megum ekki gleyma okkur í gleðinni. Næsti leikur er strax á þriðjudaginn við ÍBV í Olísdeildinni. Þá verður næsta próf. Okkar markmið er að fylgja eftir góðum leikjum eftir áramótin í deildinni,“ sagði Patrekur.
Afturelding, Fram, Haukar og Stjarnan eru í undanúrslitum Poweradebikarsins. Leikir undanúrslita fara fram fimmtudaginn 16. mars í Laugardalshöllinni. Dregið verður hvaða lið mætast í undanúrslitum
Höfum ekki koðnað niður
Sigurinn í gærkvöldi var sá þriðji hjá Stjörnunni í röð eftir að keppni hófst aftur í byrjun þessa mánaðar eftir hlé síðan í desember. „Síðustu leikir hafa verið góðir hjá okkur. Við höfum ekki koðnað niður heldur haldið áfram að berjast ólíkt því sem var fyrir áramótin þegar við lékum nokkra góða leiki en féllum svo niður á milli. Ég vil sjá okkur halda áfram á þeirri braut sem höfum verið á í síðustu leikjum,“ sagði Patrekur sem var vitanlega ánægður með frammistöðuna í gær þegar á heildina er litið.
Vorum með gott plan
„Valur er með hörkulið og maður verður að mæta af krafti gegn þeim og með gott leikplan. Þrátt fyrir að vera þremur mörkum undir í hálfleik þá var ég rólegur. Mér fannst við eiga í fullu tré við Valsmennina þrátt fyrir að hafa farið illa með mörg góð marktækifæri. Þess utan finnst mér eftir á að mér hafi tekist vel til við að rótera liðinu í leiknum. Við vorum allan tímann á fullum krafti, það skilað árangri,“ sagði Patrekur Jóhannesson þjálfari Stjörnunnar í samtali við handbolta.is í gærkvöld.
Miðvikudaginn 15. mars verður leikið til undanúrslita í Poweradebikar kvenna. Haukar, ÍBV, Selfoss og Valur eiga lið eftir í keppninni.