Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna, skipað leikmönnum 19 ára og yngri, tapaði með eins marks mun fyrir Tékkum í fyrri vináttuleiknum í Louny í Tékklandi í kvöld, 26:25, eftir að hafa verið þremur mörkum undir að loknum fyrri hálfleik.
Liðin eigast við á nýjan leik á sama stað á morgun. Leikirnir eru liður í undirbúningi fyrir þátttöku á EM í júlí.
Íslenska liðið var yfir framan af í viðureigninni í kvöld en eftir að Tékkar jöfnuðu metin, 8:8, voru þeir með frumkvæðið í leiknum. Íslenska liðinu tókst að minnka muninn í tvö mörk, 22:20, þegar tíu mínútum voru eftir.
Tékkneska liðið var þremur mörkum yfir þegar skammt var til leiksloka en íslensku stúlkunum tókst að skora tvö síðustu mörkin. Síðasta markið skoraði Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín þegar tíu sekúndur voru eftir af leiktímanum.
Mörk Íslands: Rakel Oddný Guðmundsdóttir 5, Embla Steindórsdóttir 5, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 4, Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín 3, Inga Dís Jóhannsdóttir 2, Aníta Eik Jónsdóttir 1, Elísa Elíasdóttir 1, Sara Dröfn Ríkharðsdóttir 1, Thelma Melsteð Björgvinsdóttir 1, Valgerður Arnalds 1.
Varin skot: Elísa Helga Sigurðardóttir 9, Ethel Gyða Bjarnesen 5/2.