- Auglýsing -
- Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði níu mörk, þar af fimm úr vítaköstum, í sigri Kadetten Schaffhausen á HSC Suhr Aarau, 28:27, í svissnesku A-deildinni í handknattleik karla í gærkvöld.
- Aðeins liðu tveir sólarhringar á milli leikja hjá Kadetten en liðið vann Ystads í Evrópudeildinni á þriðjdagskvöldið. Í þeim leik skoraði Óðinn Þór 14 mörk. Hann hefur þar með skorað 23 mörk í 26 skotum í tveimur leikjum í vikunni. Aðalsteinn Eyjólfsson er þjálfari Kadetten sem er í öðru sæti deildarinnar.
- Eftir hvern sigurleikinn á fætur öðrum síðustu vikur þá tapaði Leipzig í gær í heimsókn sinni til HC Erlangen í þýsku 1. deildinni í handknattleik, 36:32. Viggó Kristjánsson skoraði fimm mörk, þar af eitt úr vítakasti, og átti fimm stoðsendingar fyrir Leipzigliðið sem leikur að vanda undir stjórn Rúnars Sigtryggssonar þjálfara. Ólafur Stefánsson er aðstoðarþjálfari HC Erlangen sem er í 10. sæti.
- Leipzig féll niður um eitt sæti í deildinni, í áttunda sæti, vegna þess að HSV Hamburg vann Rhein-Neckar Löwen, 35:32, í Mannheim. Ýmir Örn Gíslason skoraði eitt mark og var einu sinni vísað af leikvelli í liði Rhein-Neckar Löwen sem áfram er í öðru sæti deildarinnar en hætt er við að tapið setji strik í reikning liðsins þegar kemur að vonum um að vinna þýska meistaratitilinn.
- Arnór Þór Gunnarsson skoraði tvö mörk, annað úr vítakasti, þegar lið hans Bergischer HC vann botnlið ASV Hamm-Westfalen, 34:24, á heimavelli. Sigurinn færði Bergischer alla leið upp í 9. sæti.
- Þrátt fyrir langan lista yfir meidda leikmenn þá vann Aalborg Håndbold liðsmenn GOG, 30:28, í fyrri viðureign liðanna í fyrstu umferð útsláttarkeppni Meistaradeildar Evrópu í handknattleik karla í gærkvöld. Leikið var í Álaborg. Aron Pálmarsson tók ekki þátt í leiknum vegna meiðsla. Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari Aalborg. Síðari leikurinn verður á Fjóni í næstu viku.
- Bjarni Ófeigur Valdimarsson og félagar í Skövde virðast vera að ná sér á flug. Alltént unnu þeir Sävehof með þriggja marka mun, 32:29, á heimavelli í sænsku úrvalsdeildinni í gærkvöld. Bjarni Ófeigur skoraði fjögur mörk og gaf fimm stoðsendingar í leiknum. Sex markskot misstu marks.
- Tryggvi Þórisson skoraði ekki mark fyrir Sävehof í leiknum. Með sigrinum stökk Skövde upp í fimmta sæti sænsku úrvalsdeildarinnar fyrir lokaumferðina. Sävehof er í öðru sæti.
- Auglýsing -