- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sjaldan er ein báran stök – farangurinn varð eftir í París

U19 ára landsliðið við brottför frá Keflavíkurflugvelli í morgun. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

Í annað sinn á skömmum tíma verður ungmennalandslið Íslands í handknattleik fyrir því að nær allur farangur liðsins verður eftir þegar millilent er. Fyrir um mánuði varð svo gott sem allur farangur U19 ára landsliðs kvenna eftir í Amsterdam við millilendingu á ferð til Búkarest.

EMU19: Farangurinn var skilinn eftir – „allt í reyk í Búkarest“

Í kvöld gripu leikmenn og þjálfarar U19 ára landsliðs karla svo gott sem í tómt á Franjo Tudjman, alþjóðaflugvellinum í Zagreb. Aðeins fjórar töskur skiluðu sér á leiðarenda, en 22 heltust úr lestinni á Charles de Gaulle-flugvelli í París þar sem hópurinn millilenti. Íslenska liðið hefur leik á heimsmeistaramótinu á miðvikudaginn.

Biðu í tvær stundir

„Við höfðum beðið í tvær stundir á flugvellinum þegar við vorum orðnir úrkula vona um að 22 töskur skiluðu sér,“ sagði Heimir Ríkarðsson annar þjálfara U19 ára landsliðs karla við handbolta.is fyrir stundu.

Hópurinn er á leiðinni til Đurđevac frá Zagreb í rútu en bækistöðvar íslenska liðsins verða í Đurđevac næstu daga þótt leikið verði í Koprivnica. Milli Đurđevac og Koprivnica er sagður vera liðlega hálftíma akstur.

Vonir standa til að á leiðarenda Đurđevac verði komið um miðnætti að staðartíma eftir 15 stunda ferðalag frá Íslandi.

Skór í handfarangri

„Leikmenn eru allir með skó í handfarangri enda er það skylda. Margir eru einnig með æfingafatnað í handfarangri,“ sagði Heimir og bætti við að þegar væri búið að hafa samband við stjórnendur mótsins sem væru allir að vilja gerðir til að hlaupa undir bagga.

„Þeir ætla að redda búningum, boltum og klístri fyrir æfingu á morgun.

Vonast eftir búningunum

Þeir ætla líka að fara út á völl annað kvöld og freista þess að koma töskunum til okkar þá, ef þær skila sér með því flugi,“ sagði Heimir sem vonast til þess að keppnisbúningarnir verði komnir í tíma fyrir fyrsta leik sem verður rétt eftir hádegið á miðvikudaginn.

Í tilfelli U19 ára landsliðs kvenna þá skilaði farangurinn sér rétt fyrir fyrsta leik.

EMU19: Eftir þrumur og eldingar birtist farangurinn öllum á óvart

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -