„Við erum með góða breidd í leikmannahópnum og brugðum á það ráð í leikhléinu að skipta ferskum fótum inn á leikvöllinn, um leið tókst okkur að þétta raðirnar auk þess sem Björgvin Páll fór að verja allt hvað af tók. Allt lagðist þetta á eitt,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals spurður hvað breyttist í leik Vals eftir að hann tók leikhléið þremur mörkum undir eftir tíu mínútna leik í síðari hálfleik gegn FH í kvöld.
Eftir leikhléið sneri Valur við blaðinu, jafnaði metin og komst í framhaldinu yfir og gaf forskot sitt aldrei eftir. Valur vann FH, 27:26, í upphafsleik 2. umferðar í Origohöllinni í kvöld. Sigurinn var e.t.v. öruggari en lokatölurnar gefa til kynna því FH skoraði 26. markið rétt áður en leiktíminn rann út.
Menn risu upp
„Svo risu ýmsir leikmenn upp í lokin sem nauðsynlegt er í toppleikjum,“ sagði Óskar Bjarni sem var að vonum kátur með sigurinn í þessum annars hörkuleik tveggja mjög góðra handboltaliða.
Mikilvægt að eiga von
„Það skiptir mjög miklu máli þegar leikið er við FH og ÍBV, svo dæmi sé tekið, að missa liðin ekki fimm eða sex mörkum fram úr sér. Þá getur verið erfiðara að koma til baka. Meðan maður getur haldið sér í jöfnum leikjum þá er alltaf möguleiki á að vinna en um leið og þú missi andstæðinginn fimm til sjö mörkum fram úr þá þyngist róðurinn verulega,“ sagði Óskar Bjarni.
Treysti dómurunum
Spurður um rauða spjaldið sem Benedikt Gunnar fékk eftir 12 mínútna leik þá sagðist Óskar ekki hafa neinar athugasemdir við það. „Ég treysti dómurunum. Þeir segja að það sé ákveðið svæði í kringum höfuið sem ber að hafa í huga og að Daníel var innan þess svæðis. Ég held að boltinn hafi farið í andlitið á honum,“ sagði Óskar Bjarni og bætti við að það hafi ekki verið alslæmt fyrir liðið að missa Benedikt Gunnar af leikvelli.
Fékk svör í staðinn
„Ég fékk svör frá leikmönnum í staðinn. Það mæddi mjög mikið á Benna í undirbúningsleikjum okkar fyrir mótið vegna meiðsla annarra. Nú fengu aðrir leikmenn tækifæri. Aron Dagur, Viktor og Maggi leystu mjög vel úr stöðunni sem upp kom,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals.